Fréttasafn



15. jan. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Heimsókn í ORF Líftækni

Fulltrúar Samtaka iðnaðarins heimsótti ORF Líftækni í gær sem er meðal aðildarfélaga samtakanna. Það voru þau Frosti Ólafsson, forstjóri ORF Líftækni, og Marta Blöndal, lögfræðingur hjá ORF Líftækni, sem tóku á móti þeim Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra SI, og Eddu Björk Ragnarsdóttur, viðskiptastjóra á hugverkasviði SI. Frosti kynnti fyrir þeim starfsemina og sögu ORF Líftækni.

Í heimsókninni voru helstu áskoranir á sviði nýsköpunar ræddar ásamt hugmyndum um hvernig beisla megi þá þekkingu og gögn sem fyrirtæki í heilbrigðis- og líftækniiðnaði búa yfir. ORF Líftækni, sem stofnað var árið 2001, er í mikilli sókn þessi misserin. Fyrirtækið hefur þróað tækni til að framleiða sérvirk prótein í byggi, en aðferðin er afrakstur áratuga vísinda- og þróunarstarfs. Próteinin eru notuð sem innihaldsefni í Bioeffect-húðvörur fyrirtækisins, seld til læknisfræðilegra rannsókna og nýtt í önnur þróunarverkefni fyrirtækisins. Saga félagsins spannar tæpa tvo áratugi og mun fyrirtækið fagna 20 ára afmæli 2021.

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Edda Björk Ragnarsdóttir, viðskiptastjóri á hugverkasviði SI, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Frosti Ólafsson, forstjóri ORF Líftækni og Marta Blöndal, lögfræðingur hjá ORF Líftækni.