Fréttasafn



24. jan. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Heimsókn í Rafmiðlun

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Ásbjörn R. Jóhannesson, viðskiptastjóri rafiðnaðar á mannvirkjasviði SI, heimsóttu Rafmiðlun í dag en fyrirtækið er meðal aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Baldur Á. Steinarsson, tók á móti þeim en Rafmiðlun er rafverktaka- og innflutningsfyrirtæki sem var stofnað 1996. 

Starfsmenn fyrirtækisins eru að fást við fjölbreytt verkefni en boðið er meðal annars upp á ráðgjöf, hönnun, uppsetningu og tæknilausnir. Fyrirtækið sér um hverskyns nýlagnir og tekur að sér viðhald og breytingar á raflögnum eftir því sem þörf er á. Þá er Rafmiðlun þátttakandi í rafbílavæðingunni og hefur sett upp hleðslustöðvar fyrir fjölmörg fyrirtæki og heimili. Samtök rafverktaka, SART, sem er aðildarfélag SI hefur tekið rafbílavæðinguna upp á sína arma og eru aðildarfyrirtæki eins og Rafmiðlun þannig að leggja sitt af mörkum í umhverfismálum. 

Í heimsókninni kom fram að næg verkefni eru hjá fyrirtækinu og jafnvel er orðið erfitt að fá fólk í vinnu þar sem sú þekking sem sóst er eftir er einnig mjög eftirsótt erlendis. 

Á myndinni eru talið frá vinstri: Ásbjörn R. Jóhannesson, Sigurður Hannesson og Baldur Á. Steinarsson.