Fréttasafn



14. jún. 2018 Almennar fréttir

Heimsókn í Rafnar

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, heimsóttu Rafnar í gær en fyrirtækið hefur smíðað skip á Íslandi og selt víða um heim en fyrirtækið hefur þróað nýtt lag á skipsskrokkum sem leiðir til mýkri siglingar sem eykur öryggi og vellíðan sjófarenda. Á móti þeim Sigurði og Halldóri Benjamín tók framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Björn Jónsson, sem sést á myndinni hér fyrir ofan auk Karls Birgis Björnssonar í viðskiptaþróun. 

Í fréttum fyrir skömmu kom fram að Rafnar hefur sagt upp öllum starfsmönnum og hyggst hætta framleiðslu skipa en áform eru uppi um að halda áfram rannsóknum og þróun hér á landi. Ástæða þessa er fyrst og fremst óstöðugt og óhagkvæmt rekstrarumhverfi á Íslandi með háu raungengi krónunnar og aukinn launakostnað. Þá nýtur hagkvæmni stærðar ekki við sem dregur enn úr hagkvæmni rekstursins. 

Þess má geta að sömu aðilar reka félagið Hefring Marine sem sérhæfir sig í auknu öryggi sjófarenda með því að safna gögnum og nýta gervigreind til að meta aðstæður og veita skipstjórnendum leiðbeiningar með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni. 

Rafnar-13-06-2018