Fréttasafn



22. maí 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Heimsókn í Slippinn Akureyri

Fulltrúar SI heimsóttu skipasmíðastöðina Slippinn Akureyri fyrir skömmu en fyrirtækið er meðal aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins. Það voru þeir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, sem komu við í Slippnum á ferð sinni um Norðurland. Páll Kristjánsson, framkvæmdastjóri, Bjarni Pétursson, sviðsstjóri skipaþjónustu, og Hilmar Guðmundsson, sölu- og markaðsstjóri, tóku á móti þeim. 

Slippurinn Akureyri er með höfuðstöðvar á Akureyri og starfsemi í Hafnarfirði. Fyrirtækið rekur upptökumannvirki og viðgerðarstöð fyrir skip og sérhæfir sig í hvers konar málmsmíði, vélsmíði, vélaviðgerðum, rennismíði og skipasmíðum. Auk þess rekur það trésmíðaverkstæði, sand-/vatnsblástur og málun. Fyrirtækið býður einnig upp á breiða varahluta- og verkfæraverslun.

Í heimsókninni var rætt um hagsmunagæslu og mikilvægi þess að samkeppnishæfni Íslands væri stöðugt í skoðun. Slippurinn hefur verið í fararbroddi þegar kemur að menntun iðnnema og er eitt þeirra fyrirtækja sem beitti sér fyrir því, ásamt SI, að koma á fót námi í tæknifræði á Akureyri sem hófst haustið 2023. Það var mikilvægt skref í mannauðsmálum á svæðinu. Aukin óvissa í rekstrarumhverfi viðskiptavina hefur þegar haft áhrif á starfsemi Slippsins líkt og hefur komið fram í samtölum við stjórnendur fleiri fyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins. Það eru þá helst tollastríð og hækkun veiðigjalda sem eru að hafa áhrif. 

Bjarni Pétursson, Sigurður Hannesson og Páll Kristjánsson.