Fréttasafn20. des. 2022 Almennar fréttir

Heimsókn stjórnar SI í Hampiðjuna

Stjórn SI heimsótti Hampiðjuna í Skarfagarði fyrir skömmu og var meðfylgjandi mynd tekin af því tilefni. Myndin er tekin í framleiðslusal Hampiðjunnar.

Það voru Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar Group, Jón Oddur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hampiðjunnar Ísland, Árni Skúlason, framleiðslustjóri Hampiðjunnar Ísland, og Einar Skaftason veiðarfærahönnuður, sem tóku á móti stjórninni. 

Hampiðjan var stofnuð 1934 þegar þrettán manna hópur skipstjóra og vélstjóra tóku sig saman og stofnuðu fyrirtækið til að framleiða trollnet, tóg og fiskilínur fyrir íslenska skipaflotann því mikill skortur var á þessum efnum í kreppunni miklu milli stríða. Fyrirtækið hefur vaxið mikið frá þeim tíma og er nú eitt stærsta veiðarfærafyrirtæki heims. Starfsemin er í 15 löndum, allt frá Alaska til Nýja Sjálands. Starfsstöðvar eru 42 í fimm heimsálfum og rúmlega 1.200 manns starfa hjá fyrirtækinu. Mikil áhersla hefur verið lögð á vöruþróun og nýsköpun og hefur Hampiðjan því sett á markað byltingarkenndar vörur og lausnir fyrir fiskveiðar og olíuiðnað, sérstaklega í margvíslegum útfærslum á ofurtógum sem eru sterkari en stál. Það hefur meðal annars skilað sér í mörgum skráðum einkaleyfum.

Mynd/BIG
Á myndinni eru, efri röð frá vinstri, Einar Skaftason, Hjörtur Erlendsson, Magnús Hilmar Helgason, Stefán Örn Kristjánsson, Sigurður Hannesson, Árni Sigurjónsson, Sigurður R. Ragnarsson, Ágúst Þór Pétursson, Halldór Halldórsson og Jón Oddur Davíðsson. Í neðri röð frá vinstri eru Arna Arnardóttir, Vignir Steinþór Halldórsson, Jónína Guðmundsdóttir, Guðrún Halla Finnsdóttir, Hjörtur Sigurðsson og Árni Skúlason.