Fréttasafn



19. sep. 2017 Almennar fréttir

Heimsókn til Gámaþjónustunnar

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, heimsótti Gámaþjónustuna í Berghellu í Hafnarfirði í gær sem er eitt af aðildarfyrirtækjum Samtaka iðnaðarins. Fyrirtækið sem var stofnað árið 1983 rekur alhliða umhverfisþjónustu og hefur verið í fararbroddi í flokkun og endurvinnslu úrgangs. Það hefur lagt áherslu á að nýta sér tækni á öllum helstu sviðum starfseminnar. 

Í Berghellu í Hafnarfirði er móttöku- og flokkunarstöð ásamt endurvinnslustöð fyrir almenning. Starfsemin er þar á 9 hekturum og húsnæði er um 4.000 fermetrar. Vinnsluferlið miðar að því að hámarka hlut þeirra efna sem fara til endurvinnslu og halda urðun í lágmarki. Gámaþjónustan er með ISO 14001 vottun á umhverfisstjórnunarkerfi sínu. 

Á myndinni eru Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Gunnar Bragason, framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar, og Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður Gámaþjónustunnar.