Fréttasafn24. okt. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Heimsókn til Odda

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur SI, heimsóttu í dag  Odda sem er meðal aðildarfyrirtækja SI. Á móti þeim tók forstjóri Odda, Gunnar Sverrisson, sem sýndi þeim framleiðsluna í aðalstöðvum fyrirtækisins á Höfðabakka. Meðal þess sem verið er að framleiða þessa dagana hjá Odda er fjöldi bóka sem eru að koma út fyrir jólin. En hjá Odda er um 2/3 af starfseminni umbúðaframleiðsla og 1/3 annars konar prentun líkt og bókaprentun. Fyrirtækið er vel tækjum búið og er fylgst vel með allri tækniþróun. 

Mikil áhersla er lögð á umhverfismál hjá fyrirtækinu og er unnið eftir skýrum markmiðum í umhverfismálum í endurvinnslu, umhverfisvænu hráefni og endurnýjanlegri orku. Til að mynda er vel fylgst með kolefnisfótspori fyrirtækisins. Hjá fyrirtækinu er framleitt bæði úr pappír og mjúkplasti. Fyrirtækið er staðsett á þremur stöðum. Aðalstöðvarnar, prentun og öskjuframleiðsla er á Höfðabakka 7, plastframleiðsla og umbúðaverslun á Fosshálsi 17 og bylgjuframleiðsla á Köllunarklettsvegi 1.

Á myndinni er Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur SI, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Gunnar Sverrisson, forstjóri Odda.