Fréttasafn



23. ágú. 2017 Almennar fréttir

Heimsóknir í aðildarfyrirtæki SI

„Það er mikilvægur liður í starfsemi Samtaka iðnaðarins að heimsækja aðildarfyrirtæki samtakanna, ræða við félagsmenn og taka púlsinn reglulega. Það var ánægjulegt í þessum fyrstu heimsóknum mínum að sjá hversu starfsemin er öflug hjá fyrirtækjunum og greinilegt að atvinnulífið er nokkuð blómlegt á þessu svæði.“ Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, en hann fór ásamt Árna Jóhannssyni, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, í heimsóknarferð í Borgarfjörð og á Grundartanga í gær. 

Jorvi

Ferðin hófst hjá Hauki Júlíussyni eiganda Jörva á Hvanneyri. Það fór vel á því að fyrsta aðildarfyrirtækjaheimsókn Sigurðar var á æskuslóðir en hann dvaldi á Hvanneyri til 14 ára aldurs þegar hann flutti til Bolungarvíkur. Haukur hefur rekið Jörva frá árinu 1978 ásamt konu sinni, Ingibjörgu Jónasdóttur. Fyrirtækið sérhæfir sig í jarðvinnu og í stórri starfsstöð Jörva mátti sjá forláta traktor sem verið var að koma í stand auk fjölmargra vinnuvéla frá ýmsum tímabilum jarðvinnu á Íslandi. 

IMG_8288

Næst lá leiðin í Borgarverk, þar sem Óskar Sigvaldason, framkvæmdastjóri, og Stefanía Nindel, fjármálastjóri, tóku á móti þeim. Starfsmenn verktakafyrirtækisins Borgarverks eru um 70 talsins og starfa í vinnuflokkum víða um land við jarðvinnslu en fyrirtækið er aðallega í vegaframkvæmdum, meðal annars í slitlagslögnum. Fyrirtækið var stofnað 1974 og er því meðal þeirra elstu á verktakamarkaði á Íslandi. Borgarverk er einnig með starfsstöð á Selfossi.


IMG_8360


IMG_8354

Límtré/Vírnet var því næst heimsótt og sýndi Andri Daði Aðalsteinsson, markaðsstjóri, verksmiðjuna sem rekin er í Borgarnesi en fyrirtækið er einnig með starfsemi á Flúðum og á Reykjanesi. Í Borgarnesi er fjölbreytt framleiðsla og meðal annars framleitt valsað stál og ál til klæðninga utan- og innanhúss. Á Flúðum fer límstrésframleiðslan fram og framleiðsla á steinullareiningum. Eftir sýnisferð um fyrirtækið var spjallað við Stefán Loga Haraldsson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

IMG_8370

Meitill-GT Tækni er staðsett á Grundartanga mitt á milli Elkem og Norðuráls en fyrirtækið þjónustar meðal annars þessi tvö stóriðjufyrirtæki. Bolli Árnason, framkvæmdastjóri, tók á móti þeim Sigurði og Árna og var meðal annars rætt um þá miklu þörf sem er á fleiri iðnaðarmönnum en hjá Meitli-GT Tækni starfa 65 manns. Hjá fyrirtækinu er unnið á sviði málm-, véla-, rafmagns- og farartækja, meðal annars við framleiðslu, nýsmíði, endurnýjun og breytingar.

Sigurður segir að það sem helst hafi brunnið á mönnum í samtölum sínum við þá séu erfiðleikar við að manna störf. „Það er ljóst að það er töluverður skortur á iðnaðarmönnum þessi misserin. Það virðist erfiðast að fá málmiðnaðarmenn og rafvirkja til starfa. Þetta ýtir enn frekar undir þær áherslur Samtaka iðnaðarins að auka aðsókn að iðn-, verk- og tækninámi.“