Fréttasafn



28. jan. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Helmingur fasteignaskatta á fyrirtæki renna í borgarsjóð

Mikill meirihluti atvinnuhúsnæðis er skattlagður með lögbundnu hámarki álagningar, 1,65%. Munar þar mestu að Reykjavíkurborg hefur ekki hnikað frá lögbundnu hámarki í meira en áratug. Er nú svo komið að helmingur fasteignaskatta á fyrirtæki landsins rennur í borgarsjóð. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag þar sem vitnað er til nýrrar greiningar SI

Í fréttinni kemur fram að Samtök iðnaðarins áætli að fyrirtæki landsins muni greiða rúmlega 28 milljarða í fasteignaskatta í ár, en það sé nærri 1% af landsframleiðslu og sé mun hærri skattbyrði en fyrirtæki bera í nágrannalöndunum. Noregur er nefndur sem dæmi en þar samsvöruðu fasteignaskattarnir 0,25% af landsframleiðslu árið 2018 þegar þeir voru 0,8% hér. Hlutfallið var 0,4% í Svíþjóð. 

Fasteignaskattar hækkað um 50% og orðnir meira íþyngjandi

Í greiningunni kemur fram að fasteignaskattarnir hafa hækkað um 50% að raunvirði frá árinu 2015. Ef aðeins sé litið á tímabilið frá 2018, þegar niðursveiflan í efnahagslífinu hófst, sjáist að hækkunin nemi 20%. Í fréttinni segir að Samtök iðnaðarins veki athygli á því að fasteignaskattar taki sífellt stærri skerf af tekjum fyrirtækja og séu orðnir meira íþyngjandi en áður. „Sveitarfélög landsins ættu að axla ábyrgð, sinna hagstjórnarhlutverki sínu og lækka fasteignaskatta á fyrirtæki því með slíkri lækkun er fyrirtækjum og heimilum hjálpað að mæta samdrættinum í efnahagslífinu,“ segir í greiningu SI. 

Helmingur sveitarfélaga notar hámarksálagningu 1,65%

Þá segir í fréttinni að meirihluti fyrirtækja greiði lögbundið hámark fasteignaskatta. Meðaltalið í ár verði 1,6%. Helmingur sveitarfélaga landsins, 36 talsins, haldi álagningunni fastri í lögbundnu hámarki (1,65%) milli ára og 65% skattstofns fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði sé innan þessara sveitarfélaga. Tíu sveitarfélög lækki álagningarprósentuna í ár. Dragi þetta úr útgjöldum fyrirtækjanna um 200 milljónir kr. á landsvísu, sem sé þó aðeins lítill hluti skattanna. 

Reykjavíkurborg ekki lækkað álagningaprósentu í áratug

Einnig er sagt frá því að Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélagið af 10 stærstu sem ekki hafi hnikað til álagningarprósentu fasteignaskatta á fyrirtæki á síðasta áratug. Prósentan sé í lögleyfðu hámarki og fasteignamatið hafi hækkað hratt. Sé nú svo komið að önnur hver króna af fasteignagjöldum fyrirtækja í landinu renni í borgarsjóð. Sveitarstjórnir Hafnarfjarðar og Kópavogs hafi hins vegar lækkað skatta á sín fyrirtæki til muna síðustu ár og þannig hjálpað þeim að mæta niðursveiflunni.

Morgunblaðið / mbl.is, 27. janúar 2020.