Helsta verkefnið 2018 er aukin samkeppnishæfni Íslands
Aukin samkeppnishæfni Íslands og mótun framtíðarsýnar er helsta verkefni stjórnvalda, atvinnulífs og raunar samfélagsins alls árið 2018. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í upphafsorðum greinar sinnar á Kjarnanum sem ber yfirskriftina Áræðni, ný hugsun og djörf framtíðarsýn.
Sigurður segir að samkeppnishæfni aukist með umbótum í menntakerfi þannig að þörfum atvinnulífsins verði betur mætt, með því að búa nýsköpun umhverfi á heimsmælikvarða, með nauðsynlegri uppbyggingu innviða og með bættum starfsskilyrðum fyrirtækja. „Hugvit verður drifkraftur vaxtar á 21. öldinni rétt eins og hagkvæm nýting náttúruauðlinda var undirstaða vaxtar á 20. öldinni. Hugvitsdrifinn iðnaður hefur stundum verið nefndur fjórða stoð hagkerfisins. Umbætur til þess að auka samkeppnishæfni landsins gagnast ekki aðeins atvinnulífinu heldur eru til hagsbóta fyrir samfélagið í heild sinni enda verður Ísland þannig áfram í fremstu röð, hagkerfið mun standa á fleiri stoðum, stöðugleiki eykst sem og verðmætasköpun, lífskjör landsmanna batna enn frekar, atvinnutækifæri verða fjölbreyttari og Ísland verður eftirsóknarvert fyrir ungt fólk.“
Á Kjarnanum er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.