Fréttasafn5. sep. 2016 Iðnaður og hugverk

Héraðsprent hlýtur Svansvottun

Héraðsprent á Egilsstöðum sem er eitt af aðildarfyrirtækjum SI er komið með norræna umhverfismerkið Svaninn og afhenti umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, eigendum fyrirtækisins staðfestingu á því þegar hún heimsótti fyrirtækið fyrir skömmu.

Hjónin Gunnhildur Ingvarsdóttir og Þráinn Skarphéðinsson eru eigendur Héraðsprents en prentsmiðjan var stofnuð árið 1972 í 30 fermetra bílskúr en er nú rekið í 500 fermetra húsnæði með 8 starfsmenn.

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Fyrir prentsmiðjur miðast kröfurnar við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá öllu prentferlinu, allt frá uppruna hráefna til meðhöndlun úrgangs. Svansvottuð fyrirtæki á Íslandi eru 33 talsins.

Nánar á vef umhverfisráðuneytisins: https://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2994