Fréttasafn14. sep. 2022 Almennar fréttir Félag húsgagna– og innréttingaframleiðenda Mannvirki Starfsumhverfi

Hið opinbera líti meira til umhverfisáhrifa í innkaupum

Ef hið opinbera liti meira til umhverfisáhrifa í innkaupum sínum á húsgögnum og innréttingum gæti íslensk framleiðsla staðið mun jafnari fótum gagnvart innfluttri framleiðslu. Til viðbótar hefði kaupandinn ávinning af gæðum íslenskrar framleiðslu og möguleikum á meiri þjónustu. Þetta segir Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, í grein í ViðskiptaMogganum með yfirskriftinni Umhverfisvænni innkaup á húsgögnum og innréttingum. Hann segir að með því að jafna stöðu innlendra framleiðenda og innflytjenda á erlendri framleiðslu verði til aukin samkeppni á markaði og um leið nýliðun í atvinnugreininni hér á landi. Þá stuðli jafnari staða að hagvexti og síðast en ekki síst veiti hún innlendum atvinnurekendum tækifæri til að vaxa og fjölga störfum innan greinarinnar.

Launagreiðendum í greininni fækkað um 60% frá 2008

Í greininni kemur fram að íslensk húsgagna- og innréttingaframleiðsla eigi undir högg að sækja. Launagreiðendum í greininni hafi fækkað jafnt og þétt undanfarinn rúman áratug. Frá árinu 2008 hafi þeim fækkað um 60%. Þá hafi launagreiðendur verið 65 samkvæmt staðgreiðsluskrá en séu einungis 26 núna. Því sé mikilvægt að styrkja stoðir íslenskrar húsgagna- og innréttingaframleiðslu.

Innlend framleiðsla umhverfisvænni en innflutt vara

Bjartmar segir í greininni að við búum svo vel hér á landi að íslenskir húsgagna- og innréttingaframleiðendur bjóði upp á gæðaframleiðslu og sveigjanlega þjónustu auk þess sem slík framleiðsla sé umhverfisvænni en sambærileg innflutt vara. „Ef einungis innkaupaverð er látið ráða vali á vöru í opinberum innkaupum getur íslensk framleiðsla staðið höllum fæti gagnvart innfluttri framleiðslu. Samkeppni innlendra framleiðenda við innflutta framleiðslu er hörð. Hækkanir á innlendum kostnaðarþáttum undanfarið ásamt hærra gengi krónunnar hafa veikt samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda. Innlendar launahækkanir hafa verið miklar og vextir farið hratt hækkandi undanfarið. Þá hefur leiguverð atvinnuhúsnæðis hækkað auk þess sem ýmis opinber gjöld og kvaðir hafa lagst æ þyngra á húsnæðiseigendur. Hækkun fasteignamats atvinnuhúsnæðis um 10,2% hefur bein áhrif á hækkun fasteignagjalda atvinnurekenda.“

Sjóflutningur vegur þyngst í umhverfisáhrifum innfluttra húsgagna og innréttinga

Að beiðni Félags húsgagna- og innréttingaframleiðenda tók KPMG saman greiningu á umhverfisáhrifum erlendrar húsgagna- og innréttingaframleiðslu. Samkvæmt greiningunni má áætla að 44% af heildarlosun kolefnis erlendrar framleiðslu megi rekja til hrávöru, 24% til líftímakostnaðar hennar, þ.e. viðhalds og viðgerða, 5% megi rekja til framleiðslunnar sjálfrar en flutningur hingað til lands bæri stærstu sneiðina eða 49%. Þar vega sjóflutningar þyngst. Með innlendri framleiðslu er hægt að draga verulega úr slíkum umhverfisáhrifum enda væri innflutningur á hrávöru í iðnaðarpakkningum eða jafnvel án nokkurra umbúða, þ.e. á efni í stað fullunninnar vöru, mun hagstæðari með hliðsjón af umhverfisáhrifum. Þá eru húsgögn og innréttingar á Íslandi framleidd með mun umhverfisvænni orkugjöfum en almennt gengur og gerist í öðrum ríkjum Evrópu.

Sjónum einnig beint að kostnaði af vöru á líftíma hennar

Þá segir Bjartmar í greininni að sjálfbær opinber innkaup fái sífellt aukið vægi í alþjóðlegu samhengi. Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbær opinber innkaup frá 2017 hafi 66% þeirra landa sem skoðuð hafi verið sett sér sérstaka stefnu þar um. Heilt yfir hafi kaup á sjálfbærum húsgögnum verið í 5. sæti á forgangslista þjóðanna hvað varðar vöruflokka. Evrópusambandið hafi gefið út græna handbók (e. buying green) fyrir opinber innkaup til að aðstoða opinbera aðila við að setja sér stefnu um sjálfbær innkaup. Í handbókinni sé meðal annars bent á að við innkaup hins opinbera sé sjónum beint að kaupverði en einnig að kostnaði af viðkomandi vöru á líftíma hennar. Í greininni kemur fram að í  aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum til ársins 2030 sé kveðið á um að vistvæn innkaup verði gerð að almennri reglu við innkaup hins opinbera. Þá eigi umhverfis- og loftslagssjónarmið að verða hluti af stefnu um sjálfbær opinber innkaup. Ekki þurfi að setja sérstaka stefnu um vistvæn innkaup heldur verði umhverfis- og loftslagssjónarmið hluti af stefnu ríkisins um sjálfbær opinber innkaup.

Stjórnvöld veiti umhverfisáhrifum aukið vægi í innkaupum

Í niðurlagi greinarinnar segir að tækifæri séu fólgin í því að skapa meiri verðmæti innanlands. Því sé mikilvægt að stjórnvöld veiti umhverfisáhrifum framleiddrar vöru aukið vægi, í samræmi við stefnu íslenska ríkisins um sjálfbær opinber innkaup, og styðji þannig beint við framgang hringrásarhagkerfisins og vöxt íslenskrar húsgagna- og innréttingaframleiðslu.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

ViðskiptaMogginn, 14. september 2022.