Fréttasafn6. des. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Hið opinbera sýni gott fordæmi og kaupi innlenda framleiðslu

„Ef við tækjum tíu prósent af innflutningi og keyptum í staðinn innlendar vörur eða framleiddum þær hér yrðu til 1.600 bein og óbein störf. Veltan næmi 40 milljörðum króna. Áhrif á greiðslujöfnuð væri um eitt prósent og við værum þannig að spara gjaldeyri. Þetta sýnir það hvernig við getum haft heilmikil áhrif með vali.“ Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í viðtali Haraldar Guðmundssonar, blaðamanns, í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag. 

Hann segir að hið opinbera þurfi að fara fram með góðu fordæmi og versla í auknum mæli við innlenda framleiðendur. „Það sem er áhugavert í þessu er að samkvæmt lögum skal verja um einu prósenti af kostnaði við nýbyggingar á vegum ríkisins til kaupa á listaverkum. Þegar kemur að öðrum þáttum, eins og húsgögnum, innanstokksmunum og annarri hönnun, þá eru engar slíkar kröfur. Ef við skoðum stóru myndina, þá koma 45 af hverjum 100 krónum sem eytt er í hagkerfinu frá hinu opinbera. Það hefur því mikið að segja um hvernig samfélagið þróast og hvort hér verði til sprotar sem vaxi úr grasi. Þarna hafa Danir náð talsverðum árangri. Þess vegna er skrýtið að sjá opinberar byggingar hér eins og Hörpu eða Veröld – hús Vigdísar þar sem innanstokksmunir eru að öllu eða mestu leyti innfluttir. Þetta eru dýrar hönnunarvörur og ekki sjónarmiðið um verð sem ræður þar ríkjum. Þarna erum við að glata tækifærinu til að byggja upp íslenskan iðnað sem snertir bæði hönnuði og framleiðendur,“ segir Sigurður í Markaðnum og vísar til nýlegrar skýrslu Business Europe um að hver tíu störf í framleiðslu skapi önnur sex afleidd. 

Sigurður flytur erindi á fyrsta Framleiðsluþingi SI sem hefst í Hörpu í dag kl. 8.30. 

Hér er hægt að nálgast viðtalið við Sigurð í heild sinni.