Hlé á íbúðalánveitingu óviðunandi staða
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í frétt mbl.is að hlé bankanna á veitingu íbúðalána, og meðfylgjandi óvissu, komi á slæmum tíma fyrir byggingariðnaðinn sem hafi mátt glíma við versnandi starfsumhverfi undanfarið. Hann segir að staðan sé „algjörlega óviðunandi“ og að staðan megi ekki vara lengi.
Óvissa um stöðu lántakenda ekki á bætandi
Ingólfur segir í frétt mbl.is að vaxtakostnaður framkvæmdalána sé hár og sölutími nýrra eigna hafi lengst, en hann sé nú um 250 dagar að jafnaði. „Byggingarkostnaður hefur einnig verið að hækka, meðal annars vegna mikilla hækkana sveitarfélaga á gatnagerðar- og byggingarréttargjöldum.“ Hann segir að við þetta bætist aukin skattbyrði vegna hækkunar virðisaukaskatts á vinnu á verkstað, sem síðasta ríkisstjórn hafi komið á og að þetta umhverfi hafi valdið samdrætti í greininni. Það sé því ekki á það bætandi að óvissa ríki nú um stöðu lántakenda.
1.200 kaupsamningar á mánuði
Í fréttinni kemur fram að samkvæmt Ingólfi hafi um 1.200 kaupsamningar verið gerðir á mánuði á íbúðamarkaði undanfarið og séu þeir langflestir fjármagnaðir með verðtryggðum lánum, ýmist með breytilegum eða föstum vöxtum. Af þessum kaupsamningum segir hann 150 samninga hafa verið gerða með nýjar íbúðir mánaðarlega. „Það hefur því verið eitthvað líf á markaðinum þrátt fyrir að það hafi hægst á honum undanfarið.“
mbl.is, 23. október 2025.

