Fréttasafn



25. maí 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Hljóð og mynd fara ekki saman hjá sveitarfélögunum

„Vandinn er sá að á samþykktum lóðum í fyrirliggjandi skipulagi í þessum sveitarfélögum er gert ráð fyrir miklu, miklu færri íbúðum. Eftir kosningar, þegar gengið er frá meirihlutasamstarfi og aðalskipulag tekið upp, hljóta sveitarstjórnarmenn í öllum þessum sveitarfélögum að taka tillit til þess að það vantar fjölda íbúða í skipulag til að bregðast við þeirri þróun sem sveitarfélögin búast sjálf við. Að mínu mati sýnir þetta að hljóð og mynd fara ekki saman. Sveitarfélögin áætla annars vegar að íbúum muni fjölga mikið á svæðinu en hins vegar er ekki gert ráð fyrir íbúðum til að hýsa þetta fólk,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Morgunblaðsins í dag. 

7.000 íbúðir á samþykktum lóðum en þyrfti 30 þúsund íbúðir fram til ársins 2040

Í frétt Baldurs Arnarsonar, blaðamanns, kemur fram að ætla megi að um 16 þúsund manns geti búið í nýjum íbúðum á óbyggðum samþykktum lóðum á höfuðborgarsvæðinu en til samanburðar sé áætlað að íbúum á svæðinu fjölgi um 70 þúsund til ársins 2040. Þar segir að samkvæmt úttekt Samtaka iðnaðarins mætti byggja 7.000 íbúðir samkvæmt samþykktu skipulagi á auðum lóðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem langflestar, eða rúmlega 4.500 íbúðir, rúmist á samþykktum lóðum í Reykjavík. 

Í fréttinni segir Sigurður að ljóst sé að lóðir fyrir 7.000 íbúðir muni aðeins rúma tæpan fjórðung þess fyrirhugaða íbúafjölda sem fram komi í spá Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2014.  Samkvæmt því sem kemur fram í aðalskipulagi Reykjavíkur sé gert ráð fyrir 2,25 íbúum í hverri íbúð og þurfi því að byggja um 30 þúsund íbúðir til ársins 2040 svo hýsa megi þessa 70 þúsund íbúa. Það sé um þrefaldur sá íbúðafjöldi sem rúmast nú á lóðum í samþykktu skipulagi. 

Morgunbladid-25-05-2018

Morgunblaðið, 25. maí 2018.