Hljóð og mynd fara ekki saman í álögum á nýbyggingum
Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins, var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 þar sem rætt var um nýja greiningu SI sem sýnir að álögur á nýbyggingar eru orðnar verulega íþyngjandi og að byggingarréttar- og gatnagerðargjöld séu orðinn stór tekjuliður hjá mörgum af stærstu sveitarfélögum landsins. „Auðvitað er það þannig, og við skiljum það vel þegar við tölum um byggingarréttargjöldin, sem er auðvitað bara söluverð af lóð, að sveitarfélögin innheimti tekjur af því og er að hugsa þarna um eignir almennings. Það er aftur á móti vont þegar maður setur öll þessi gjöld saman að þau eru að hækka svona mikið, á sama tíma og það er verið að kalla hérna eftir stóraukinni uppbyggingu og uppbyggingu af hagkvæmu húsnæði. Þarna er hljóð og mynd ekki endilega að fara saman,“ segir Jóhann Klara meðal annars í samtali við þáttastjórnandann Björn Þór Sigbjörnsson.
Jóhanna Klara segir SI hafa ráðist í greininguna til að reyna að ná betur utan um gjaldhækkanir undanfarinna ára. „Auðvitað eru það mörg gjöld sem þarf að innheimta en byggingarréttargjöldin og gatnagerðargjöldin eru þau sem hafa verið mest í umræðunni.“ Hún bendir á að kostnaður við uppbyggingu hafi aukist mikið á síðustu árum. „Sveitarfélögin hafa líka verið að hækka sína innheimtuprósentu umfram þessa eðlilegu hækkun.“
Jóhanna Klara segir að Samtök iðnaðarins séu með þessari greiningu að benda á að gjaldtökuheimildir sveitarfélaga verði endurskoðaðar til að tryggja fyrirsjáanleika, auka gagnsæi og stilla gjaldtöku í hóf. „Ég held að við verðum að ná böndum á þessu. Við getum ekki haldið áfram að biðja um hagkvæmt húsnæði á meðan öll gjöld hækka. Það virkar ekki þannig.“
Hér er hægt að hlusta á viðtalið á Morgunvakt Rásar 1 í heild sinni.
RÚV, 10. desember 2025.

