Fréttasafn22. maí 2018 Almennar fréttir

Hlúa á að nýsköpun og sprotum

„Mér hefur alltaf þótt fallegt að hér á landi tölum við oft um athafnaskáld er við tölum um öfluga einstaklinga í atvinnulífinu. Mér finnst það viðeigandi tenging við þjóðararf okkar, bókmenntir og listir. Kristján Friðriksson var svo sannarlega athafnaskáld og lifa verk hans og hugsjónir enn þann dag í dag og minna okkur sem á eftir komum á að halda í heiðri hugmyndum hans um öfluga iðnframleiðslu hringinn í kringum landið.“ Þetta var meðal þess sem kom fram í ávarpi Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns SI, við afhendingu viðurkenninga úr Verðlaunasjóði iðnaðarins sem fram fór í listagalleríinu Berg Contemporary síðastliðinn föstudag en Kristján Friðriksson var stofnandi sjóðsins. 

Guðrún sagði jafnframt að við mættum aldrei gleyma því að styðja og styrkja við frumkvöðla sem oft og tíðum standi einir og berskjaldaðir með hugmyndum sínu. „Til að Ísland megi halda áfram að vera í fremstu röð verðum við að hlúa að nýsköpun og sprotum.  Ef við viljum skara fram úr verðum við að leggja aukna áherslu á nýsköpun. Við verðum að ýta undir frjóa hugsun og skapa grunn að framförum morgundagsins. Ísland þarf stöðugt á fólki eins og Kristjáni Friðrikssyni á að halda.“

Guðrún færði fyrir hönd Samtaka iðnaðarins þakkir til Friðriks, sonar Kristjáns, og fjölskyldunni allri fyrir að halda áfram að hlúa að og styðja við sjóðinn og þar með halda í heiðri arfleið Kristjáns að byggja upp íslenskt atvinnulíf öllum til heilla. Þá þakkaði Guðrún forseta Íslands fyrir að afhenda verðlaunin og heiðra þar með íslenskan iðnað og íslenska hugvitsmenn. Hún sagði að það væri gaman að geta þess að allir forsetar lýðveldisins hafi verið viðstaddir afhendingu á viðurkenningum Verðlaunasjóðs iðnaðarins ef frá eru taldir Sveinn Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson; Kristján Eldjárn var viðstaddur þegar fyrsta viðurkenningin var veitt árið 1977, Vigdís Finnbogadóttir árið 1988, Ólafur Ragnar Grímsson árið 1999 og nú Guðni 19 árum síðar. 

Á Facebook SI er hægt að skoða fleiri myndir frá afhendingunni.

Verdlaunasj-48Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, flutti ávarp við afhendingu viðurkenninga úr Verðlaunasjóði iðnaðarins.

Verdlaunasj-47Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, flutti ávarp og afhenti viðurkenningarnar.

Verdlaunasj-53

Verdlaunasj-52Friðrik Steinn Kristjánsson gerði grein fyrir hvaða fyrirtæki það voru sem hlutu viðurkenningar úr Verðlaunasjóði iðnaðarins; Oculis, Syndis og Kerecis. Friðrik situr í stjórn Verðlaunasjóðs iðnaðarins ásamt Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni SI, og Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra SI.