Fréttasafn



10. nóv. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Samtök arkitektastofa

Höfundaréttur arkitekta til umfjöllunar á þremur fundum

Arkitektafélag Íslands (AÍ) og Samtök arkitektastofa (SAMARK) boða til þriggja funda í nóvember þar sem fjallað verður um höfundarétt arkitekta og hvernig hann birtist í mismunandi aðstæðum. Fyrsti fundurinn fer fram á morgun þriðjudaginn 11. nóvember kl. 12-13 í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni 35. Annar fundur verður haldinn 18. nóvember og þriðji fundur verður 25. nóvember.

Sameiginlegur vinnuhópur AÍ og SAMARK hefur unnið drög að tillögum um meðferð og beitingu höfundaréttar arkitekta. Markmið fundaraðarinnar er að kynna þessar tillögur, ræða þær og móta sameiginlega afstöðu fagstéttarinnar.

Í vinnuhópnum sátu Kristján Örn Kjartansson, fyrrverandi stjórnarmaður í Hönnunarmiðstöð, Halldór Eiríksson, formaður SAMARK, Hildigunnur Sverrisdóttir frá LHÍ og Helgi Steinar Helgason, fyrrverandi formaður AÍ. Tillögurnar hafa þegar verið kynntar stjórnum beggja félaga og Myndstef hefur rýnt þær.

Ástæða vinnunnar

Ástæða þessarar vinnu er aukin ásælni verkkaupa, einkum opinberra aðila, í höfundarétt arkitekta — oft í formi framsals á rétti að byggingum. Jafnframt er þörf á samræmdri afstöðu fagsins til beitingar réttarins, sem myndi styrkja félögin í viðræðum við verkkaupa og í tengslum við samkeppnir og útboð. Rétt er þó að undirstrika að höfundaréttur er einkaréttur aðalhönnuðar, og að ekkert framsal eða takmörkun hans getur átt sér stað nema með samþykki viðkomandi höfundar. Félögin leitast þó við að móta sameiginlega sýn á hvernig réttinum sé rétt að beita og verja í samskiptum við verkkaupa.

Um efni fundanna

Á fundunum verður fjallað um þrjú meginviðfangsefni:

  1. Höfundaréttur í samkeppnum
  2. Höfundaréttur í nýframkvæmdum og samningagerð
  3. Höfundaréttur og breyting byggðra verka

Auk þess verða ræddar hugmyndir um gagnaafhendingu og skyldur og réttindi sem henni tengjast.

Hver fundur hefst á 15–20 mínútna kynningu á viðfangsefninu og í kjölfarið fara fram umræður og ákvarðanataka eftir því sem við á.

Hvar og hvenær

Fundirnir verða haldnir í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, í fundarherberginu Hyl, frá kl. 12:00–13:00:

· Þriðjudagur 11. nóvember - Höfundaréttur í samkeppnum

· Þriðjudagur 18. nóvember - Höfundaréttur í nýframkvæmdum og samningagerð

· Þriðjudagur 25. nóvember - Höfundaréttur og breyting byggðra verka

Félagsfólk AÍ og SAMARK er hvatt til að mæta og taka virkan þátt í mótun sameiginlegrar stefnu um meðferð á höfundarétti arkitekta.

Hér er hægt að skrá sig á fundina.