Fréttasafn14. feb. 2019 Almennar fréttir Menntun

Höldur og Friðheimar fá menntaverðlaun

Höldur á Akureyri og Friðheimar í Bláskógabyggð hafa hlotið Menntaverðlaun atvinnulífsins en þau eru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr á sviði fræðslu- og menntamála. Það var mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, sem afhenti verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu í dag. 

Sa_menntadagurinn_2019_holdurGuðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Þórdís Bjarnadóttir, bókanastjóri og fyrsti skólastjóri Mannauðsskóla Hölds, Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, Geir Kristinn Aðalsteinsson, mannauðsstjóri Hölds, Sigrún Árnadóttir verkefnastjóri hjá Höldi og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Menntafyrirtæki ársins 2019 - Höldur

Höldur er öflugt og rótgróið ferðaþjónustufyrirtæki sem starfar um land allt. Höldur rekur Bílaleigu Akureyrar sem er stærsta bílaleiga landsins með tuttugu og þrjú útibú. Flotinn telur um 4.500 bíla og fyrirtækið er einn stærsti bílakaupandi landsins auk þess að veita fjölbreytta þjónustu. Um 240 starfsmenn eru hjá Höldi allt árið og á fjórða hundrað þegar mest er að gera yfir sumartímann. Störfin eru af ýmsum toga en fræðsla og markviss þjálfun er lykillinn að góðum rekstri.

Sa_menntadagurinn_2019_fridheimarLilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Rakel Theodórsdóttir, markaðs-og gæðastjóri Friðheima, Janis Schwenke veitinga-og móttökustjóri Friðheima, Helena Hermundardóttir og Knútur Ármanna eigendur Friðheima og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Menntasproti ársins 2019 - Friðheimar

Friðheimar er blómlegt fjölskyldufyrirtæki í Bláskógabyggð á Suðurlandi. Árið 1995 keyptu ung hjón úr Reykjavík, Knútur Ármann og Helena Hermundardóttir, yfirgefna gróðrarstöð þar sem þau hafa látið drauma sína rætast og upplifað ævintýri sem þau sáu ekki fyrir. Fyrir 10 árum síðan opnuðu þau Friðheima fyrir ferðamönnum og á síðasta ári heimsóttu þau um 180 þúsund gestir. Ferðaþjónusta er veigamesti þátturinn í rekstri Friðheima í dag ásamt framleiðslu tómata, hrossarækt og fræðslu um íslenska hestinn og ylrækt á Íslandi. Friðheimar eru opnir allt árið. Heilsársstörf eru um 50 og 10 starfsmenn bætast við yfir sumarið.

Á vef SA er hægt að fá frekari upplýsingar um fyrirtækin sem hlutu verðlaunin.