Fréttasafn



6. okt. 2016 Almennar fréttir

Hönnunaverðlaunin afhent

Hönnunarverðlaun Íslands verða afhent í dag en það er Hönnunarmiðstöð Íslands sem stendur að verðlaununum í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Landsvirkjun, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Hátt í 100 tilnefningar bárust dómnefnd sem valdi fjögur verk sem þykja framúrskarandi, einnig verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun líkt og í fyrra. En besta fjárfesting í hönnun er veitt fyrirtæki sem hefur hönnun eða arkitektúr að leiðarljósi frá upphafi verka til að auka verðmætasköpun og samkeppnishæfi. Vinningshafinn verður tilkynntur í dag í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Hönnunarverðlaunum Íslands er ætlað að vekja athygli á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs og beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi. Verðlaunin eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi ný verk, einstakan hlut, verkefni eða safn verka.

Í forvali dómnefndar til Hönnunarverðlauna Íslands 2016 eru:

As We Grow sem er íslenskt hönnunarfyrirtæki í eigu Guðrúnar Rögnu Sigurjónsdóttir prjónahönnuðar, Maríu Th. Ólafsdóttur fatahönnuðar og Grétu Hlöðversdóttur framkvæmdastjóra. Með vörulínunni tvinna þær saman fagurfræði, hefðum og nútíma í endingargóðan fatnað sem bæði vex með hverju barni og endist á milli kynslóða.

Lulla doll er afrakstur Eyrúnar Eggertsdóttur frumkvöðuls, Birnu Bryndísar Þorkelsdóttur hönnuðar og Sólveigar Gunnarsdóttur markaðsstjóra. Dúkkunni er ætlað að róa og veita ungabörnum öryggistilfinningu og betri svefn, en hún líkir eftir hjartslætti og andardrætti foreldris.

Leturstúdíóið Or Type stofnuðu grafísku hönnuðirnir Guðmundar Úlfarssonar og Mads Freund Brunse árið 2013. Letur þeirra hafa nú þegar farið víða og verið notuð á fjölbreyttar vörur s.s. tímarit, umbúðir og búninga íslenska karla- og kvennalandsliðsins í knattspyrnu á EM.

Sýningin Orka til framtíðar í Ljósafossstöð skýrir á gagnvirkan hátt orku og hvernig má bæði beisla hana og nýta. Hönnuðir sýningarinnar eru Gagarín og Tvíhorf arkitektar en fjöldi annarra fyrirtækja og sérfræðinga komu að sýningunni.