Fréttasafn



8. sep. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Hópuppsögn undantekning í upplýsingatækniiðnaði

„Hugverkaiðnaðurinn á Íslandi blómstrar um þessar mundir og er í mikilli sókn og svona hópuppsögn er undantekning í þessari grein,“ segir Sigríður. Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í frétt Morgunblaðsins í tengslum við uppsögn 25 manns af 37 í upplýsingatæknifyrirtækinu Grid í ágústmánuði.

„Við sjáum ekkert nema vöxt í kortunum í hugverkaiðnaði og tugir fyrirtækja eru í mikilli sókn,“ segir Sigríður í fréttinni og bætir við að almennt sé mikill vöxtur í iðnaði og sérstaklega í hugverkaiðnaðinum og hafi verið undanfarin ár. „Umhverfi og starfsskilyrði nýsköpunarfyrirtækja hafa líklega aldrei verið betri en þau eru í dag.“ 

Mörg sprotafyrirtæki berjast um fjármögnun

Í frétt Morgunblaðsins segir að mikill uppgangur í hugverkaiðnaði undanfarin ár hafi valdið því að mörg sprotafyrirtæki berjist nú um hituna og fjármögnun sem gæti útskýrt þessa hópuppsögn hjá Grid, en í heildina sé mikill vöxtur. „Það er alltaf þannig að sprotafyrirtæki koma og fara og sum ná flugi og önnur ekki, og stundum þarf að draga saman seglin ef fjármagn fæst ekki til að reka reksturinn í óbreyttri mynd,“ segir Sigríður og bætir við að hún viti ekki hver staðan hafi verið hjá Grid í þessu máli. 

Þá segir í frétt Morgunblaðsins að í síðasta mánuði hafi einnig verið hópuppsagnir hjá Skaganum 3X þegar fyrirtækið lokaði starfsstöð sinni á Ísafirði eins og greint hafi erið frá í Morgunblaðinu, en þar var gefin sú ástæða að erfið markaðsstaða í Rússlandi hefði meðal annars áhrif. Sigríður segir í fréttinni að þær uppsagnir séu ekki dæmigerðar fyrir sterka stöðu iðnaðar á Íslandi í dag.

Morgunblaðið / mbl.is, 8. september 2023.

Morgunbladid-08-09-2023_1