Horfur á að vítahringurinn á íbúðamarkaði haldi áfram
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, var viðmælandi í Kastljósi ásamt Jóhanni Páli Jóhannssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, þar sem rætt var um stöðuna á íbúðamarkaðinum. Í þættinum kom fram að kaupsamningum hafi fækkað með hækkandi stýrivöxtum og nú stefni í verulegan samdrátt í uppbyggingu á íbúðarhúsnæði sem gæti svo aftur leitt til enn meiri húsnæðiseklu og verðhækkana þegar fram í sækir.
Umsjónarmaður Kastljóss, Bergsteinn Sigurðsson, spurði hvernig hægt væri að rjúfa þennan vítahring og halda dampi í íbúðaruppbyggingu í verðbólgu og hávaxtaumhverfi.
Sigurður sagði meðal annars að við værum sannarlega í vítahring „sem lýsir sér þannig að höfum ekki byggt um 10 ára skeið eða svo og þó uppbygging hafi verið nokkuð jöfn síðustu árin. Það leiddi til mikilla verðhækkana, hvatti til verðbólgu, vextir hækkuðu og núna eru vextir farnir að hæga á uppbyggingunni. Við gerðum könnun meðal félagsmanna sem leiddi það í ljós að þó það séu mikil umsvif akkúrat núna og íbúðir sem verða þá klárar og koma inn á markaðinn á þessu og næsta ári þá eru horfur á miklum samdrætti sem leiðir þá til verðhækkana og vítahringurinn heldur áfram.“
Þegar Sigurður er spurður hvort áformin um 35 þúsund íbúðir á næstu 10 árum gangi segir hann: „Ekki miðað við stöðuna í dag og það þarf þá einhverskonar inngrip til að halda framboðinu uppi. Það þarf samstillt átak ríkis, sveitarfélaga og iðnaðarins ef það á að ganga og íbúðauppbyggingin mæti þörfum samfélagsins.“
Hvers konar inngrip? „Ríkið setur reglur og er að reyna að einfalda regluverk og það er af hinu góða. Það var gerður rammasamningur við sveitarfélögin um uppbyggingu og þar hefur verið bent á að í fjármálaáætlun fylgir ekki fjármögnun í því samkomulagi sem þarf auðvitð að huga að. Því ríkið hefur hlutverki þar að gegna. Sveitarfélögin þurfa að skaffa lóðir, ganga frá skipulagi og hafa stjórnsýsluna skilvirka og iðnaðurinn þarf svo að gera sitt.“
Á vef RÚV er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni frá mínútu 10:44.
Kastljós RÚV, 10. maí 2023.
RÚV, 11. maí 2023.
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, Bergsteinn Sigurðsson, umsjónarmaður Kastljóss, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.