Fréttasafn



3. sep. 2020 Almennar fréttir Menntun

HR efstur íslenskra háskóla á lista yfir bestu háskóla í heimi

Á nýútkomnum lista Times Higher Education (THE) yfir bestu háskóla heims er Háskólinn í Reykjavík í sæti 301-350 og efstur íslenskra háskóla. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum auk þess sem tilgreint er að HR sé áfram í efsta sæti listans á mælikvarða sem metur áhrif rannsókna í fræðasamfélaginu en áhrifin eru metin út frá fjölda tilvitnana í vísindagreinar, hversu oft aðrir vísindamenn vitna í niðurstöður fræðimanna háskólans í ritrýndum vísindagreinum.

Í tilkynningunni kemur fram að í alþjóðlegu háskólasamfélagi sé mikið horft til lista Times Higher Education yfir bestu háskóla í heimi. Listinn byggir m.a. á mati á kennslu, rannsóknum, alþjóðastarfi og samstarfi við atvinnulífið. Áhrif rannsókna eru metin út frá upplýsingum frá Elsevier um rúmlega 86 milljónir tilvitnanir í 13,6 milljón ritrýndar fræðigreinar, yfirlitsgreinar, bækur, bókakafla og ráðstefnurit, sem gefin hafa verið út síðustu fimm árin. Í einkunnagjöf THE fyrir tilvitnanir er jafnframt tekið tillit til fjölda starfsmanna við háskóla, mismunar á útgáfutíðni milli fræðigreina og fleiri slíkra atriða.

Þá kemur fram að í sumar hafi verið greint frá því að HR sé í 59. sæti yfir bestu ungu háskóla í heimi, 50 ára og yngri og í 18. sæti á lista yfir smærri háskóla, með færri en 5.000 nemendur.