Fréttasafn19. jan. 2017 Almennar fréttir Menntun

HR í samstarf við Aalto í rafmagnsverkfræði

Meistaranemum í rafmagnsverkfræði við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík býðst nú að ljúka tvíþættri meistaragráðu frá Aalto University í Finnlandi og Háskólanum í Reykjavík. Aalto-háskólinn hefur getið sér gott orð fyrir nýjungar í kennslu og nútímalegt námsframboð. Nemendur eru tæplega 20 þúsund talsins.

Í tilkynningu frá HR kemur fram að Mohamed Abdelfattah, lektor við tækni- og verkfræðideild HR, segir að með þessu nýja námi sé komið til móts við hluta nemenda í meistaranámi. „Það eru margir nemenda okkar sem langar að læra erlendis í meistaranáminu en hafa ekki tök á því að dvelja í tvö ár í öðru landi, bæði vegna fjölskylduaðstæðna og fjárhags. Þarna er komið tækifæri fyrir þá nemendur að fara ákveðna millileið og stunda hluta námsins erlendis.“ Hann segist því líta á námið sem góða þjónustu við þennan hóp auk þess sem þetta sé tilraun í þróun náms við tækni- og verkfræðideild sem gæti orðið fyrirmynd fleiri slíkra tvíþættra gráða. Mohamed segir það koma til greina að bjóða upp á slíkt nám í fleiri háskólum á Norðurlöndunum. „Við byrjum á Aalto og sjáum til með eftirspurnina.” 

Umsækjendur um námið geta jafnframt sótt um Erasmus-styrk til að standa straum af kostnaði við ferðalög og uppihald í Finnlandi. Sótt er um hjá HR en báðir háskólarnir þurfa að samþykkja umsóknina. Til að ljúka MSc-gráðunni þarf 120 ECTS einingar, 60 frá hvorum háskólanum. Þar með talið er 30 ECTS lokaverkefni undir leiðsögn leiðbeinenda frá hvorum skólanum fyrir sig. Nemendur HR verða að dvelja í eina önn, hið minnsta, í Helsinki. Þannig verða væntanlega nemendur frá Aalto-háskóla við nám í rafmagnsverkfræði í HR á næsta ári. Þegar er byrjað að kenna með þessu fyrirkomulagi við HR og opið er fyrir umsóknir í Finnlandi þó að kennslan þar í náminu hefjist ekki fyrr en í ágúst. Nemendur HR borga skólagjöld við HR.

Nánar á vef HR.