Fréttasafn



4. mar. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Menntun

HR með nýja námsbraut fyrir þá sem eru í mannvirkjagerð

HR hefur stofnað nýja námsbraut í upplýsingatækni í mannvirkjagerð fyrir þá sem starfa í byggingariðnaði og mannvirkjagerð. Kennsla á að hefjast í haust en um er að ræða eins árs hagnýtt diplómanám sem ætlað er að veita nemendum þekkingu á sviði upplýsingatækni í mannvirkjagerð eða BIM (Building Information Modeling).

Á vef HR er haft eftir Ingibjörgu Birnu Kjartansdóttur, kennara á námsbrautinni og formanns BIM Ísland, að upplýsingatækni í mannvirkjagerð bjóði upp á ótal möguleika í hagræðingu og virðissköpun fyrir byggingariðnaðinn í heild sinni. 

Þar segir jafnframt að í þessu hagnýta diplómanámi öðlist nemendur reynslu, þekkingu og færni í að leysa flókin og þverfagleg vandamál í mannvirkjagerð og stjórna verkefnum í umhverfi BIM upplýsingalíkönum í mannvirkjagerð. Diplómanámið hentar sérstaklega vel fyrir byggingarstjóra, byggingariðnfræðinga, tæknifræðinga, verkfræðinga, arkitekta og byggingafræðinga. Námið hentar einnig þeim sem vilja sérhæfa sig í þeim stafrænu umbreytingum sem nú eiga sér stað.