Fréttasafn



6. jún. 2017 Almennar fréttir Menntun

HR og HA í samstarf um nám í tölvunarfræði á Akureyri

Háskólinn í Reykjavík mun bjóða upp á BSc-nám í tölvunarfræði á Akureyri í samstarfi við Háskólann á Akureyri frá og með næsta vetri. HR og HA hafa verið í samstarfi um tveggja ára diplómanám í tölvunarfræði undanfarin tvö ár og útskrifuðust í vikunni fyrstu nemendurnir sem stundað hafa diplómanámið á Akureyri. 

Nám í tölvunarfræði á Akureyri er sveigjanlegt nám, að hluta fjarnám og að hluta staðarnám. Fyrirlestrar eru haldnir í HR og teknir upp og hlaðið á netið eða streymt í kennslustofu í HA. Verklegir tímar og dæmatímar eru hins vegar haldnir í Háskólanum á Akureyri og nemendur njóta í þeim aðstoðar kennara á staðnum.

Í tilkynningu segir að tölvunarfræðideild HR sé stærsta tölvunarfræðideild landsins en á síðasta ári voru 189 nemendur brautskráðir frá deildinni. Deildin hefur lagt metnað í að útskrifa vel menntað og hæft starfsfólk fyrir upplýsingatæknigeirann ásamt því að undirbúa nemendur fyrir frekara nám. Í dag stunda yfir 800 nemendur nám við deildina á fjölbreyttum sviðum upplýsingatækni, s.s. tölvunarfræði, tölvunarstærðfræði, upplýsingastjórnun og hugbúnaðarverkfræði.