Fréttasafn



16. maí 2025 Almennar fréttir Mannvirki

Hraða skipulagsferlum og huga að vilja kaupenda

„Við verðum að skipuleggja okkur betur. Það má ekki taka áratug að breyta hugmynd í heimili,“ sagði Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, á opnum fundi sem haldinn var í Hlöðunni við Gufunesbæ í vikunni. Fundurinn sem var á vegum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík bar yfirskriftina Hvernig sköpum við hverfi þar sem fólki líður vel.

Kerfisbundnar hindranir í skipulagsferlum

Í erindi sínu lagði Jóhanna áherslu á að íbúðaskortur í borginni sé ekki eingöngu spurning um eftirspurn, heldur kerfisbundna erfiðleika sem tengjast skipulagsmálum og lóðaframboði. Samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðabankans tekur það að meðaltali 109 daga að fá byggingarleyfi hér á landi sem er meira en í samanburðarlöndum. Hún benti einnig á að tafir og óskilvirkni í ferlum valdi ófyrirsjáanleika, sem aukið hafi kostnað og dregið úr fjárfestingavilja.

Þörf á aðlögun að raunverulegri eftirspurn

„Það ríkir ósamræmi milli skipulagsáherslna sveitarfélaga og þess sem íbúar og markaðurinn kalla eftir,“ sagði Jóhanna. Þannig sé oft krafist verslunarhúsnæðis á jarðhæðum eða of fá bílastæði sem torveldi sölu og fjölbreytileika íbúða. Þá sé ferli hlutdeildarlána langt og óskilvirkt þrátt fyrir mikla eftirspurn eftir slíkum íbúðum.

Hún lagði áherslu á að sveitarfélög þurfi að hlusta betur á markaðinn og bæta samráð við atvinnulífið. Mikilvægt væri að auka framboð lóða, tryggja skýra tímalínu í skipulagsferlum og fjárfesta í framtíðarskipulagi hraðar.

Nauðsynlegt að endurskoða gjaldtöku og þjónustuhlutverk

Í erindi Jóhönnu kom einnig fram að innviðagjöld og gatnagerðargjöld séu víða orðin mjög há og ekki í samræmi við raunverulegan kostnað við uppbyggingu. „Of oft verður borgin flöskuháls í stað þess að vera þjónustuaðili,“ sagði hún og lagði til að þjónustumarkmið og aukið gagnsæi verði innleidd í alla stjórnsýsluferla. Í máli hennar kom fram að til að tryggja fjölbreytt og aðgengilegt húsnæði fyrir íbúa þurfi sveitarfélög og ríki að vinna markvisst með atvinnulífinu. Skýr, skilvirk og fyrirsjáanleg stjórnsýsla væri forsenda þess að hægt væri að bregðast við þörfum íbúanna með ábyrgð og hraða. Hún sagði Samtök iðnaðarins áfram beita sér fyrir umbótum á kerfum og skýrum ramma um samstarf í þágu öflugs húsnæðismarkaðar.

Mynd3_1747318538958