Fréttasafn



11. okt. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Hringborðsumræður um byggingariðnað

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, tók þátt í hringborðsumræðum með norrænum byggingar- og húsnæðismálaráðherrum og forstjórum úr byggingariðnaðinum á Norðurlöndum. Tilgangur umræðunnar var meðal annars að finna raunhæfar leiðir til að hægt verði að byggja ódýrara húsnæði en það er áskorun sem öll norrænu löndin standa frammi fyrir. Ein slík lausn er að gera fyrirtækjum í norrænu löndunum kleift að bjóða í framkvæmdir í öðru norrænu landi með einföldum hætti og án aukins kostnaðar. Það má til dæmis gera með því að þróa stafræna þjónustu þvert á landamæri. Á fundinum ræddu ráðherrarnir einnig hvernig löndin geti unnið meira saman til að greiða fyrir byggingu húsnæðis í dreifbýli og hvað hægt sé að gera til að auðvelda aðgengi ungs fólks og jaðarsettra hópa að húsnæði.

Á vef Stjórnarráðs Íslands er haft eftir Paulu Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar: „Aukið samstarf þvert á landamæri stækkar markaðinn og leiðir því til aukinnar samkeppni og ódýrara húsnæðis. Við verðum að skilgreina stærstu hindranirnar í vegi norræns samstarfs og bregðast við þeim. Þannig fáum við ódýrara húsnæði sem fólk hefur efni á, einnig ungt fólk og jaðarsettir hópar.“ 

Á myndinni hér fyrir ofan eru þátttakendur í hringborðsumræðunum þar sem fjallað var um aukið samstarf þvert á landamæri. Ásmundur Daði Einarsson, félags- og barnamálaráðherra, er fyrir miðri mynd í neðri röð og Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, er lengst til hægri í neðri röð.