Fréttasafn2. nóv. 2015 Iðnaður og hugverk

Hringrás Plasts - Ráðstefna

Fjallað var um plast frá ýmsum sjónarhornum á ráðstefnunni Hringrás Plasts sem haldin var á vegum Fenúr, Fagráð um endurvinnslu og úrgangsmál. Ráðstefnan var haldin hjá Ölgerðinni í sal Bjórskólans. Farið var í heimsókn til plastframleiðslu Odda þar sem fræðst var um framleiðsluferlana. Framleiðslan krefst mikils hreinlætis og vandvirkni og allur aðbúnaður ber þess merki. Fyrirtækið hefur komið upp tækjabúnaði til endurvinnslu á plasti sem endurvinnur allt efni sem til fellur í innan fyrirtækisins. Umhverfisáhrif af framleiðslunni eru því í lágmarki. Vel er hægt að taka við meiru af flokkuðu efni til endurvinnslu. 

Andri Már Guðmundsson bauð gesti velkomna og sagði frá umhverfisstarfi Ölgerðarinnar og áherslu fyrirtækisins á samfélagslega ábyrgð. Hann sagði frá nokkrum umhverfisverkefni þar sem markvisst er unnið að því að minnka umhverfisáhrif, s.s. úrgang og útblástur. Það vakti athygli að yfir 90% af úrgangi sem fellur til hjá fyrirtækinu fer til endurvinnslu. Vegur þar þyngst hrat frá bjórframleiðslu sem er nýtt sem dýrafóður.

Ábyrgðin er okkar allra

Plast sem finnst í umhverfinu er á ábyrgð okkar allra og engum einum um að kenna, sagði Kristín Linda Árnadóttir , forstjóri Umhverfisstofnunar . Hún sýndi niðurstöður nýlegra rannsókna sem sýna hversu víðtækar uppsprettur plasts í umhverfinu eru. Augu rannsakenda beinast í auknum að örögnum í hafi. Hrönn Jörundsdóttir hjá Matís sagði frá norrænu verkefni þar sem uppsprettur og magn öragna er rannsakað. Sjónum er einkum beint að frárennsli og hvort agnirnar berist með því til sjávar. Fyrstu niðurstöður benda til að svo geti verið.

Hreint og vel flokkað plast er verðmætt hráefni

Gámaþjónustan hefur sent plastefni til endurvinnslu í áraraðir og Gunnar Bragason , forstjóri fyrirtækisins segir lykilinn felast í að ná góðri flokkun í upphafi. Glært efni er verðmætast og því leggja menn talsvert á sig til að flokka plastúrgang í liti áður en efnið er selt. Óhreinindi lækka verð sem hægt er að fá fyrir efnið og er nóg að einn aðili setji óhreint efni í gám til að skemma farminn. Hérlendis eru litlir möguleikar á endurvinnslu og senda þarf efnið erlendis og  flutningskostnaður vegur þungt. Tilkoma Úrvinnslusjóðs hefur gert vinnsluna mögulega. 

Aðalheiður Jacobsen hjá Netpörtum sagði frá breytingum sem bílapartasölur eru að ganga í gegnum. Áður voru þetta skítug plön með bílhræjum liggjandi um allt. Nú eru bílapartasölur snyrtilegir hillurekkar með umfangsmiklu rekjanleika- og skráningarkerfi. Lögð er áhersla á gæði og áreiðanleika vörunnar. Stór hluti bifreiða er plast og skoða Netpartar nú hvernig hægt er koma því betur inn í plasthringrásina aftur. 

Framleiðendaábyrgð vekur athygli erlendis

Það er dýrt og vandasamt að safna blönduðum plastúrgangi frá heimilum en vel gerlegt. Úrvinnslusjóður,  sem byggir á framleiðendaábyrgð, hefur sett af stað tilraunaverkefni sem sýnir að erfiðast er að ná flokkun nægilega góðri þegar safnað er frá heimilum og líkum úrgangi frá fyrirtækjum. Gjarnan vilja slæðast með pappaumbúðir, matarafgangar og annað sem fer ekki vel í plastendurvinnsluferla að sögn Guðlaugs Sverrissonar hjá Úrvinnslusjóði.

Haukur Þór Hauksson , aðstoðarframkvæmdastjóri SFS, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sagði frá því hvernig framleiðendaábyrgð er útfærð fyrir veiðarfæri, en SFS heldur utan um það verkefni. Veiðarfærum er safnað um allt land og þau send til endurvinnslu. Verkefnið hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og þykir til fyrirmyndar að slíkt kerfi sé rekið af greininni, þó vissulega megi bæta framkvæmd hérlendis. 

Plast getur farið í hringi og skilað sér aftur í framleiðslu

Framleiðsla á olíu úr plasti er nýjung en fyrirtækið GPO á Akureyri hyggst framleiða olíu úr heyrúlluplasti á næsta ári. Ef vel gengur verða fleiri tegundir plasts skoðaðar. Tæknin sem er notuð er japönsk en GPO hefur endurbætt stýringar og umgjörð í uppsetningu. Erfiðlega hefur gengið að fá leyfi fyrir starfseminni því hún fellur ekki inní núverandi lagaramma segir, Hjörtur Narfason Stjórnarformaður GPO.

Í Hveragerði er hafin hreinsun og vinnsla á plastúrgangi. Sigurður Halldórsson hjá Feng sagði að fyrirtækið nýti jarðgufu og varma til að vinna efnið og nái þannig að gera þetta með hagkvæmum hætti. Fyrirtækið tekur við heyrúlluplasti, hreinsar og malar og selur efnið aftur til framleiðenda slíks plast svo hringrásinni er lokað. Verkefnið vakti mikla athygli enda er eftirspurn eftir hreinu plasti hérlendis.

Áður en farið var til plastgerðar Odda sagði Stefán Hrafn Hagalín frá starfsemi Odda sem rekur prentsmiðju, kassagerði og plastframleiðslu. Fyrirtækið framleiðir því umbúðir úr alls kyns hráefnum. Stefán sagði að þegar rætt er um ókosti plasts megi ekki gleyma gangsemi þess. Sem dæmi þá lengir það líftíma matvæla að geyma þau í plastumbúðum og þannig er stuðlað að minni matarsóun. Það að plast finnist út í náttúrunni sé okkur öllum til vansa og slíkt á ekki að líðast. Tryggja þurfi að kerfi fyrir söfnun og endurvinnslu á plasti séu skilvirk.

Nicolas Marino Proietti stjórnarmaður í Fenúr sagði frá heimssamtökunum ISWA og ráðstefnu þeirra í haust. Nicolas hvatti félagsmenn Fenúr að nýta sér efni og aðgang að ISWA en Fenúr er aðili að samtökunum og geta þau opnað ýmsar dyr fyrir aðila á markaðnum.