Fréttasafn



16. jan. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Hrönn skipuð forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, hefur skipað Hrönn Greipsdóttur í starf forstjóra Nýsköpunarsjóðsins Kríu. Þetta kemur fram að vef Stjórnarráðsins. Þar segir að Nýsköpunarsjóðurinn Kría sé sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og hafi orðið til við samruna Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs. Hlutverk sjóðsins sé að auka framboð fjármagns og fjármögnunarkosta fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og auka viðnámsþrótt fjármögnunarumhverfisins. Sjóðurinn hafi jafnframt það hlutverk að hvetja, með fjárfestingum sínum, einkafjárfesta til þátttöku í fjármögnun nýsköpunar. 

Eftir ítarlegt matsferli lagði stjórn sjóðsins til við ráðherra að Hrönn Greipsdóttir yrði ráðin í starf forstjóra. Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, situr í stjórn sjóðsins tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins, aðrir í stjórn eru Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, formaður, án tilnefningar, Ásta Dís Óladóttir, án tilnefningar, Guðmundur Halldór Björnsson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu, og Róbert Farestveit, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands.