Fréttasafn



3. okt. 2016 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Hryggjarstykki verðmætasköpunar

Nýleg greining Arionbanka á ferðaþjónustu sem atvinnugrein varpar skýru ljósi á hversu mikið greinin hefur vaxið á fáeinum árum og hversu efnahagslegt vægi hennar er mikið. Í fyrra var beint vægi greinarinnar að mati bankans 8% og stefnir í um 10% á þessu ári. Árið 2010 var vægi greinarinnar 5%. Leiddar eru líkur í greinigu Arionbanka að því að landsframleiðsla væri 80-180 milljörðum minni en hún er án uppgangs ferðaþjónustu. Með hlut atvinnugreinar í landsframleiðslu eða verðmætasköpun greinarinnar er átt við hvað fyrirtæki í greininni borga í laun og hvað þau greiða fyrir fjármagnið, þ.e. vexti og arð. Búbótin sem 1,7 milljón erlendra ferðamenn færa þjóðarbúinu er sannarlega mikil.

En hversu mikið er hlutur ferðþjónustunnar í verðmætasköpun borið saman við aðrar greinar? Er ferðaþjónusta hryggjarstykki verðmætasköpunar í landinu? Á móti þeim 8% sem ferðaþjónustan skapar árið 2015 skilar iðnaðurinn í landinu 29,6%. Gróflega skiptist það þannig að matvælaiðnaður er með 1,9%, stóriðja með 3,1%, byggingariðnaður og mannvirkjagerð með 7,3%, tækni- og hugverkaiðnaður með 9,6% og annar framleiðsluiðnaður með 7,7%. Samanlagt er þetta meira en þrefalt meira framlag til verðmætasköpunar en ferðaþjónustan.

En þessi framsetning er kannski ekkert sérstaklega sanngjörn. Verðmætasköpun er bara einn mælikvarði á hlut og vægi greinar í efnahagslífinu. Fjöldi starfa og hlutdeild í útflutningstekjum eru aðrir mælikvarðar sem gefa aðra mynd. Samhengi hlutanna er nefnilega svolítið skrýtið. Þegar erlendur ferðamaður gengur inn í ísbúð í Hveragerði og kaupir ís og greiðir fyrir það með greiðslukorti sínu mælist heildarupphæðin hluti af gjaldeyristekjum ferðaþjónustunnar. Vegna þessara viðskipta er hins vegar ekkert framlag ferðaþjónustu til verðmætasköpunar heldur kemur hún fram í matvælaiðnaði. Á sama hátt mælist framlag matvælaiðnaðar til útflutnings ekkert vegna viðskiptanna.

Af þessari einföldu samantekt má ráða að fjölgun ferðamanna hefur mikil og jákvæð áhrif á aðrar greinar og hefur vöxtur greinarinnar skilað miklu til þjóðarbúsins síðustu ár. En hryggjarstykki efnahagslífsins liggur samt annarsstaðar. Framleiðsluiðnaðurinn einn og sér er meira en helmingi stærri en ferðaþjónustan horft út frá verðmætasköpun sem er líklega mikilvægasti mælikvarðinn á vægi greina.

mbl.is , 29. september 2016.