Huga þarf að sóknartækifærum
Björn Ingi Hrafnsson, ræðir við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í hlaðvarpi Viljans þar sem hún segir að stóra verkefnið sé að halda uppi atvinnustigi í landinu og tryggja þannig að áfram verði hér eftirspurn í samfélaginu. „Við erum með allt öðruvísi kreppu heldur en við vorum með síðast þegar við vorum að horfa bankakreppu.“ Hún segir að skoða þurfi hvernig við getum stutt við fyrirtækin en við þurfum líka að huga að sóknartækifærum. „Þar er ég að horfa til matvælaframleiðslu og nýsköpunar. Tökum til dæmis bara heilbrigðisvísindi og hvað við erum að sjá til að mynda fyrirtæki eins og DeCode leggja af mörkum inn í hina alþjóðlegu umræðu um þessa veiru. Þarna held ég að við getum gert betur við að styðja við þessi fyrirtæki. Þessi nýsköpunar og rannsóknar- og þróunarfyrirtæki sem geta lagt svo mikið af mörkum, bæði fyrir atvinnustigið en líka fyrir þekkingu og rannsóknir í heiminum.“
Björn Ingi vísar í viðtal sitt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem var í hlaðvarpi Viljans fyrir nokkru þar sem Sigurður sagði meðal annars að við Íslendingar hefðum mögulega gert mistök í því að veðja of mikið á eina atvinnugrein, það hafi verið bankarnir og allir hafi ætlað að vinna í banka og landið að vera alþjóðleg fjármálamiðstöð, síðan hefði það verið ferðaþjónustan og allur fókusinn settur á það. Nú þyrfti að einblína á margar atvinnugreinar ekki bara örfáar og þá fyrst og fremst að horfa til hugvitsins, þekkingar og nýsköpunar. Katrín tekur undir orð Sigurðar og þegar Björn Ingi spyr Katrínu hvað hún segi um þetta svarar hún: „Ég er algjörlega sammála þessu. Þetta er merkilegt af því þessi mynd sem Sigurður lýsir þarna er ekki endilega þannig að stjórnvöld ákveði að gera hlutina heldur er það dálítið lýsandi fyrir íslenskt samfélag. Það hefur mikið verið talað um það að við séum samheldið samfélag og það birtist stundum í því að við skellum okkur öll alltaf á næsta æðið þegar það kemur, hvort sem það er að vinna í banka eða opna ferðaþjónustufyrirtæki.“
Katrín segir að það hafi verið varað við þessu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og það verði að vera fleiri stoðir undir efnahagslífinu og það verði að vera fjölbreytni. Hún segist vera sammála því. „Hugvitið nýtur þess að vera minna háð auðlindanotkuninni og nýtingu auðlindanna. Það hjálpar samfélaginu að vera sveigjanlegt. Það er ekki nokkur spurning að þarna getum við gert betur. Það þurfum við að gera bæði í gegnum grunnrannsóknirnar en líka í nýsköpun. Við erum með Tækniþróunarsjóð, kerfi fyrir endurgreiðslur rannsókna- og þróunar en við sjáum það samt sem áður að mörg nýsköpunarfyrirtæki fara úr landi. Við þurfum að skoða hvernig við getum styrkt kerfið og byggjum leið þannig að fyrirtækin geti vaxið úr því að vera sproti yfir í það að verða miðaldra reisuleg fyrirtæki. Núna er nýsköpunarráðherra með frumvarp inn í þinginu sem snýr að því hvernig við getum stutt við fjárfestingar í nýsköpun, nýsköpunarsjóðurinn Kría. Ég held að þetta sé mjög spennandi leið til þess að styrkja þessa leið í nýsköpunarkerfinu hér á Íslandi.“
Á vef Viljans er hægt að hlusta á viðtalið við forsætisráðherra í heild sinni.