Fréttasafn



8. apr. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun Starfsumhverfi

Látum þriðja áratuginn vera áratug nýsköpunar

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í samtali við Björn Inga Hrafnsson í Hlaðvarpi Viljans að Íslendingar hafi gert þau mistök að einblína of mikið á eina tiltekna atvinnugrein í stað þess að dreifa áherslunni og áhættunni á fleiri greinar. Á fyrstu árum þessarar aldar hafi ofuráhersla verið lögð á uppbyggingu fjármálakerfis og hrunið 2008 hafi gjörbreytt þeirri stöðu. Við hafi tekið ofuráhersla á uppbyggingu ferðamannaþjónustu og nú sé algjört uppnám í þeim geira hér á landi og á alþjóðavísu. Sigurður segir að á þriðja áratug aldarinnar þurfi að leggja áherslu a fjölbreytni, ekki eina atvinnugrein í einu heldur margar og huga að nýsköpun og þróun þar sem hugvitið muni leika lykilhlutverk á 21. öldinni. „Minnumst þess að það voru óveðursský yfir Íslandi áður en veiran breiddi úr sér yfir heimsbyggðina og skyggja tók á gullöld öryggis og alþjóðavæðingar. Byggingariðnaður hafði kólnað hratt, Seðlabankinn lækkað vexti vegna kólnunar hagkerfis og atvinnuleysi aukist. Kröftug viðspyrna með réttum ákvörðunum. Nú er rétti tíminn fyrir fjárfestingar í innviðum. Á sama tíma og við verjum störfin og hlúum að því sem fyrir er, þarf að fjárfesta í vexti og verðmætasköpun framtíðar og það gerum við með nýsköpun. Virkjum hugvitið og látum þriðja áratug þessarar aldar vera áratug nýsköpunar.“ 

Í samtalinu segir Sigurður að það sé ljós við enda ganganna, þótt næstu mánuðir og misseri verði erfið og mikilvægt sé að nýta tímann vel og huga að innviðum til þess að viðspyrnan verði þeim mun meiri þegar veiran fer að hopa og hagkerfi heimsins aftur að snúast. Hann segir frá hundruðum samtala sem Samtök iðnaðarins hafi átt við fyrirtæki um allt land síðustu daga, hvað brenni helst á fyrirtækjunum í landinu og hvernig best sé að haga viðspyrnunni svo að þjóðin fari sem best út úr þessum hremmingum.  

Á YouTube er hægt að nálgast viðtalið við Sigurð í heild sinni:

Hér

Sigurður Hannesson og Björn Ingi Hrafnsson ræddu saman á Skype.