Fréttasafn9. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Hugverkaiðnaður er fjórða stoðin

Fjölbreytni í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins eykur stöðugleika og hagvöxt. Það eru því afskaplega jákvæð tíðindi þegar ný stoð hefur myndast, sérstaklega í hagkerfi á borð við það íslenska þar sem einhæfni í gjaldeyrisöflun hefur lengi verið vandamál. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein sinni í ViðskiptaMogganum sem ber yfirskriftina Hugverkaiðnaður er fjórða stoðin.

Ingólfur segir í grein sinni að hugverkaiðnaður sé orðin fjórða stoð gjaldeyrisöflunar íslenska þjóðarbúsins til viðbótar við sjávarútveg, ál- og kísiljárnframleiðslu og ferðaþjónustu. Áætlað sé að hugverkaiðnaður skapi 140 ma.kr. gjaldeyristekjur í ár sem eru 15% gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Gjaldeyrisöflun greinarinnar hafi aldrei verið meiri og stefni allt í að verða þriðja stærsta stoð gjaldeyrisöflunar á árinu, á eftir sjávarútvegi (28%) og ál- og kísiljárnframleiðslu (23%).

Framleiðni há og vel launuð störf

Ingólfur segir greinina byggða á hugviti og nýsköpun. Um sé að ræða fyrirtæki í upplýsinga- og fjarskiptaiðnaði, lyfja-, líftækni- og heilbrigðisiðnaði og í öðrum hátækniiðnaði. Mikill fengur sé af greininni því framleiðni sé há og störfin vel launuð og eftirsóknarverð.

Vöxtur hugverkaiðnaðar hefur verið talsverður síðustu ár. Tekjur greinarinnar voru 78 ma.kr. árið 2013 eða um 7,4% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Vöxturinn sýnir að í hugverkaiðnaði felast raunveruleg tækifæri fyrir Ísland. Gefur það vonir um að þessi fjórða stoð gjaldeyrisöflunar muni vaxa enn frekar á næstu árum.

Gæti orðið stærsta og mikilvægasta stoðin í íslensku efnahagslífi

Hann segir samkeppnishæfni hugverkaiðnaðar hér á landi hafa batnað undanfarið með breytingum á skilyrðum og hvötum til nýsköpunar og sjáum við nú árangur þess. Með réttri forgangsröðun og ákvörðunum geti þessi stoð orðið sú stærsta og mikilvægasta í íslensku efnahagslífi. Stjórnvöld og atvinnulíf þurfi að taka höndum saman og sækja ný tækifæri á þessu sviði. Með réttum aðgerðum megi tryggja frekari vöxt greinarinnar og þar með auka verðmætasköpun hagkerfisins til framtíðar.

Hér er hægt að lesa grein Ingólfs í heild sinni.

ViðskiptaMoggi, 9. desember 2020.