Fréttasafn8. nóv. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Hugverkaiðnaður gæti orðið stærsta útflutningsgreinin

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, flutti erindi á 30 ára afmælisráðstefnu Hugverkastofunnar sem fram fór í Hörpu þar sem fjallað var um samspil hugverka, nýsköpunar og sjálfbærni. Í máli Sigríðar kom fram að fyrir nokkrum árum hafi verið ljóst að íslenskt hagkerfi gæti ekki vaxið á sjálfbæran hátt með sömu þekkingu og á sama hátt og áður. Góð lífskjör á Íslandi hafi byggst á verðmætum náttúruauðlindum í sjávarútvegi, orkusæknum iðnaði og ferðaþjónustu. Það þýði að efnahagslífið væri viðkvæmt fyrir ytri áföllum. Hún sagði að Íslendingar hafi ekki þurft að móta atvinnustefnu eða áætlun fyrir framtíðarvöxt en hins vegar með meiri þekkingu, nýsköpun og hugverkadrifnu efnahagslífi hefði Ísland verið að dragast aftur úr. Þetta hafi verið meira sýnilegt með Covid-19 þegar ferðaþjónustan sem hafi vaxið hratt síðustu ár hafi orðið fyrir miklum samdrætti. Með því hafi spurningin um hvernig við gætum aukið útflutningstekjur orðið enn mikilvægari.

Láta vita af tækifærum og skapa jákvæða hvata

Sigríður sagði að nú væri búið að mynda fjórðu stoðina í útflutningstekjum Íslands sem væri ný útflutningsgrein byggð á þekkingu og hugverkaiðnaði. Hún sagði þessa nýju grein byggja aðallega á hugviti og hugverki sem væru óáþreifanlegar eignir. Samkvæmt gögnum væri hugverkaiðnaður nú orðin önnur stærsta útflutningsgrein landsins, á eftir sjávarútvegi og það væru miklar fréttir fyrir íslenskt efnahagslíf. Hún sagði hugverkaiðnað geta vaxið enn frekar ef réttar ákvarðanir verða teknar. Í því samhengi nefndi hún að hlutverk stjórnvalda til að hvetja til nýsköpunar væri af tvennum toga, annars vegar að láta vita af tækifærunum sem eru hér á landi og hins vegar að skapa jákvæða hvata sem auka samkeppnishæfnina. 

Tækifæri í grænum lausnum og heilbrigðistækni

Sigríður sagði að undanfarin ár hafi stjórnvöld aukið hvata til frekari fjárfestinga í nýsköpun. Þar skipti miklu endurgreiðslur á rannsóknar- og þróunarkostnaði. Þeir hvatar hafi verið auknir frá árinu 2018 og hafi skilað mikilli aukningu í fjárfestingum í rannsóknum og þróun. Einnig nefndi hún að með nýsköpunarstefnu og stofnun vísisjóðsins Kríu hafi stjórnvöld sent skýr skilaboð til fjárfesta og frumkvöðla að nýsköpun skipti máli og stjórnvalda vilji styðja við fjárfestingar í nýsköpun. Þetta hafi þegar leitt til umtalsverðrar aukningar fjárfestinga í rannsóknum og þróun á síðustu teimur árum. En Sigríður sagði að meira væri hægt að gera til að tryggja að tækifærin væru nýtt að fullu. Hún nefndi í því sambandi loftslagsvandann sem eina mestu áskorun heimsins. Þar skipti mestu nýsköpun, ný tækni og grænar lausnir. Á Íslandi væri það sem til þyrfti, 99,9% af orku sem er framleidd á Íslandi væri græn og við hefðum því þekkinguna sem til þyrfti. Hún sagði Ísland vera í sterkri stöðu þegar kemur að því að mæta loftslagsvandanum. Í því felist mikil tækifæri en við þyrftum að grípa þau. Það þyrfti að halda áfram að fjárfesta í rannsóknum og þróun og þá sérstaklega í því sem tengist grænum lausnum. 

Einnig nefndi Sigríður að mikil tækifæri væru falin í heilbrigðistækni til að mæta aukinni eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu og lýðfræðilegum breytingum þar með aukinni öldrun þjóða. Þar væri einnig nýsköpun og hugverk lausnin. Á Íslandi væru mörg heilbrigðistæknifyrirtæki sem eru að þróa nýjar lausnir fyrir betra og hagkvæmara heilbrigðiskerfi. 

Þarf hvata til að fjárfesta í mannauði, rannsóknum og þróun

Sigríður spurði í erindi sínu um hvað heilbrigðistækni og grænar lausnir ættu sameiginlegt og svaraði því að það þurfi sömu hvata að fjárfesta í mannauði, rannsóknum og þróun. Þess vegna hafi Samtök iðnaðarins hvatt íslensk stjórnvöld til að forgangsraða tækifærunum og fjárfesta í nýsköpun. Það muni geta leitt til frekari vaxtar í hugverkaiðnaði sem gæti orðið stærsta útflutningsgrein Íslands á næstu árum. 

Að erindunum loknum tók Sigríður þátt í umræðum. 

Hér er hægt að nálgast streymi frá ráðstefnunni. 

Hér er hægt að nálgast glærur Sigríðar. 

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.