Hugverkaiðnaður gæti orðið stærsta útflutningsstoðin
Hugverkaiðnaður hefur nú fest sig rækilega í sessi sem fjórða útflutningsstoðin og hefur alla burði til að verða sú stærsta í náinni framtíð, sé rétt á spilum haldið. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Árna Sigurjónssonar, formanns SI, við afhendingu Vaxtarsprotans sem fór fram í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal í morgun þar sem tilkynnt var um að Hopp væri Vaxtarsproti ársins 2023 og tvö önnur fyrirtæki, Dohop og Lauf Forks, hlutu viðurkenningar fyrir góðan vöxt í veltu.
Árni sagði að á þeim tæpu tveimur áratugum sem verðlaunin hafi verið veitt hafi mikilvægi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja aukist í íslensku efnahagslífi og nú sé svo komið að útflutningstekjur íslensks hugverkaiðnaðar hafi numið 239 milljörðum króna á síðasta ári. „Það þarf því ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að áfram verði til ný, öflug fyrirtæki sem hugsa stórt og út fyrir landsteinana. Þess vegna skiptir það okkur hjá Samtökum iðnaðarins miklu máli að fagna því þegar þrotlaus vinna ykkar frumkvöðlanna skilar jafngóðum árangri og raun ber vitni. Það er ekki síst öðrum hvatning til góðra verka og opnar augu frumkvöðla um hverju sé sannarlega hægt að áorka.“
Árni sagði að gróskan í íslenskum hugverkaiðnaði hafi heldur aldrei verið meiri sem sjáist kannski best á þeim fjölbreytileika sem einkennir verðlaunahafana síðustu sautján ár. Hann sagði fyrirtækið sem hlýtur nafnbótina í ár sláist þar með í hóp með framúrskarandi fyrirtækjum í sínum flokki og nefndi þar Controlant, Kerecis og 1939 Games sem hlutu viðurkenninguna á síðustu árum.
Að lokum óskaði Árni handhöfum viðurkenninganna til hamingju með glæsilegan árangur. „Ég veit að ég mæli fyrir munn okkar allra þegar ég segi að við hlökkum til að fylgjast með áframhaldandi góðu gengi til framtíðar.“
Árni Sigurjónsson, formaður SI.