Fréttasafn



21. sep. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Hugverkaiðnaður getur orðið ein stærsta útflutningsgreinin

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í Fréttablaðinu að ef rétt er haldið á spöðunum geti hugverkaiðnaðurinn orðið ein stærsta útflutningsgreinin í íslensku hagkerfi. „Þetta sýnir svart á hvítu að jarðvegurinn er frjór. Það er mikil gróska í gangi. Það eru fleiri og fleiri fyrirtæki sem eru að taka verulega vaxtarkippi, eins og Controlant, Nox Medical og Kerecis. Hugverkaiðnaðurinn hefur alla burði til að vera langöflugasta útflutningsgreinin á Íslandi ef rétt er á málum haldið. Hann getur orðið mikilvægari en ferðaiðnaðurinn og orkuiðnaðurinn og aðrar greinar.“

Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að útflutningstekjur vegna fyrirtækja í hugverkaiðnaði námu 160 milljörðum króna í fyrra, sem er 16% af öllum útflutningi frá Íslandi og tvöföldun frá árinu 2013. Fyrirtæki sem fengu endurgreiðslu vegna rannsókna- og þróunarverkefna fóru úr rúmlega 200 í rúmlega 300 á milli áranna 2019 og 2020. Um áhrif þessa segir Sigurður í fréttinni að dregið geti úr sveiflum í hagkerfinu. „Við verðum ekki eins háð því að hingað komi ferðamenn eða að við getum veitt nógu mikinn fisk úr sjónum og svo framvegis. Þetta sáum við svart á hvítu á síðasta ári þegar fyrirtæki í ferðaþjónustu urðu fyrir verulegum samdrætti út af Covid. Á sama tíma voru fyrirtæki í hugverkaiðnaði að ráða til sín fólk og velta þeirra jókst. Þau nýttu tækifærið og sóttu fram.“

Gera þarf hvata til rannsóknar og þróunar ótímabundna

Jafnframt segir Sigurður í Fréttablaðinu að ákvörðun stjórnvalda um að hækka skattafrádrátt vegna rannsókna og þróunar hafi skipt miklu máli í þessu samhengi. „Eina vandamálið er að sú aðgerð er tímabundin og rennur út núna um áramótin.“ Hann segir SI hafi heyrt af fyrirtækjum sem vildu bæta verulega í starfsemi sína en hafi haldið að sér höndum vegna þess að það vantaði meiri fyrirsjáanleika. „Ég held að það sé hægt að leysa enn meiri krafta úr læðingi á þessu sviði með því að gera þessa hvata ótímabundna. Þá gæti þessi iðnaður orðið stærsta stoðin í íslensku hagkerfi. Fyrsti áratugur aldarinnar var áratugur fjármálageirans, annar áratugurinn var áratugur ferðaþjónustunnar. Þriðji áratugurinn getur svo sannarlega verið áratugur hugverkaiðnaðar og nýsköpunar. Við erum í dauðafæri en það er háð því að réttar ákvarðanir verði teknar á næstu vikum og mánuðum.“

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 21. september 2021. 

Frettabladid-21-09-2021