Fréttasafn2. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Hugverkaiðnaður getur orðið mikilvægasta stoðin

„Hugverkaiðnaður er fjórða útflutningsstoðin í íslensku hagkerfi,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Markaðnum. „Með réttri forgangsröðun og ákvörðunum getur þessi stoð orðið sú stærsta og mikilvægasta hér á landi. Þar með yrði dregið úr sveiflum í hagkerfinu, eitthvað sem lengi hefur verið stefnt að, þannig að ytri áföll myndu ekki hafa eins mikil áhrif á okkur og nú.“

Í Markaðnum er sagt frá nýrri greiningu SI þar sem kemur fram að samtökin telja að gjaldeyristekjur hugverkaiðnaðar muni nema 140 milljörðum króna í ár og muni skapa um 15% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Útlit sé fyrir að greinin verði sú þriðja stærsta í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins í ár á eftir sjávarútvegi (28%) og ál- og kísiljárnframleiðslu (23%).

Stjórnvöld og atvinnulíf taki höndum saman um að virkja og sækja ný tækifæri

Sigurður segir í Markaðnum að með því að styðja enn frekari framgang þeirrar stoðar sem hugverkaiðnaður sé verði til ný, eftirsótt og verðmæt störf og aukin verðmætasköpun til framtíðar. „Þetta á að vera plan A og stjórnvöld og atvinnulíf eiga að taka höndum saman um að virkja og sækja ný tækifæri á þessu sviði.“

38% aukning gjaldeyristekna í hugverkaiðnaði milli ára

Í Markaðnum kemur fram að samkvæmt greiningunni jukust gjaldeyristekjur hugverkaiðnaðar um 38% á milli áranna 2018 og 2019 þegar þær námu 135 milljörðum króna og hafa aldrei verið hærri. Lyfja-, líftækni- og heilbrigðisiðnaður er sá stærsti, skapaði um 54% af gjaldeyristekjunum í fyrra og jukust þær um 63% á milli ára. Upplýsinga- og fjarskiptatækniiðnaður skapaði um 37% af tekjunum og jukust þær um 21% á milli ára. Annar hátækniiðnaður, svo sem framleiðsla á stoðtækjum eða tækjabúnaði fyrir matvælaiðnað og kvikmyndaiðnaður, skapaði 9% af tekjunum og jukust gjaldeyristekjurnar um 8% á milli ára.

Snarpur vöxtur í upplýsinga- og fjarskiptatækniiðnaði

Þá kemur fram í Markaðnum að í greiningu SI segir að snarpur vöxtur hafi verið í upplýsinga- og fjarskiptatækniiðnaði (UT) hér á landi á undanförnum árum og á síðasta ári námu gjaldeyristekjur greinarinnar 50 milljörðum króna. Til samanburðar námu gjaldeyristekjur greinarinnar 24 milljörðum króna árið 2013. Tekjur greinarinnar hafi því vaxið um 107% á tímabilinu.

Lyfja-, líftækni- og heilbrigðisiðnaður nær vopnum sínum aftur

Einnig segir í Markaðnum að lyfja-, líftækni- og heilbrigðisiðnaður hafi verið að ná vopnum sínum aftur undanfarið eftir samdráttinn frá 2016-2018. Byggi vöxtur síðustu ára meðal annars á þeirri miklu þekkingu sem varð til á uppbyggingarárum greinarinnar hér á landi. Vöxtur hafi verið í gjaldeyristekjum greinarinnar frá 2018. Fyrirtæki á borð við Cori­pharma, Alvotech, Florealis, Kerecis og Zymetech hafi verið í vexti síðustu ár og séu áform þeirra um frekari uppbyggingu hér á landi stór. Megi í því sambandi nefna að samkvæmt áætlun Alvotech verði fyrirtækið með 5% af vergri landsframleiðslu og 20% af útflutningstekjum þjóðarbúsins árið 2027.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 2. desember 2020.