Fréttasafn



8. sep. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Hugverkaiðnaður vonarstjarna í íslensku atvinnulífi

Mikill hugur var í fundarmönnum á fjölmennum ársfundi Hugverkaráðs SI sem fór fram á Hilton Reykjavík Nordica í gær. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, sagði í opnunarávarpi að vöxtur hugverkaiðnaðar væri mikið fagnaðarefni og væri um að ræða vonarstjörnu í íslensku atvinnulífi. Hann nefndi að hugverkaiðnaðurinn gæti orðið stærsta stoðin í íslensku efnahagslífi áður en áratugurinn verður á enda ef rétt verði á málum haldið. 

Tryggvi Hjaltason, formaður Hugverkaráðs SI, flutti erindi sem hann nefndi Hugverkaiðnaður - táningurinn sem allir foreldrar þrá að eiga. Hann sagði að Hugverkaráð SI hefði verið stofnað 2016 og frá þeim tíma hafi verið stöðugur vöxtur í útlutningi. Hann sagði að á sex árum fyrir 2016 hafi útflutningur aukist um 52 milljarða króna í samanburði við að á sex árum eftir 2016 hafi útflutningur aukist um 123 milljarða króna. 

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, lokaði fundinum með ávarpi þar sem hún greindi frá hagsmunagæslu fyrir hugverkaiðnaðinn síðastliðin ár. 

Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, kynnti breytt skipulag Hugverkaráðs SI og breytingar á starfsreglum ráðsins auk þess að stýra fundinum.

Nýtt Hugverkaráð SI var skipað á fundinum en í því sitja auk Sigurðar Hannessonar framkvæmdastjóra SI og Tryggva Hjaltasonar Senior Strategist hjá CCP og formanns ráðsins, Gunnar Zoega forstjóri OK og formaður SUT, Íris E. Gísladóttir framkvæmdastjóri og stofnandi Evolytes og formaður IEI, Vigdís Tinna Sigurvaldadóttir skattasérfræðingur hjá Marel, Halldór Snær Kristjánsson framkvæmdastjóri og stofnandi Myrkur Games, Guðmundur Árnason fjármálastjóri CFO Controlant,  Klara Sveinsdóttir framkvæmdastjóri gæða- og skráningarmála Kerecis, Bergþóra Halldórsdóttir Chief of Staff Borealis Data Centers og Róbert Helgason framkvæmdastjóri og stofnandi KOT hugbúnaðarlausna og Autoledger. 

Fundur-07-09-2023_4Tryggvi Hjaltason, formaður Hugverkaráðs SI.

Fundur-07-09-2023_1Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasvið SI.

Fundur-07-09-2023_5