Fréttasafn



5. sep. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Hugverkaiðnaðurinn nálgast 200 milljarða veltu

Hlutfall hugverkaiðnaðar af landsframleiðslu var rúmlega 7% í fyrra og var greinin þá m.a. umfangsmeiri en fiskveiðar, fiskeldi og fiskvinnsla. Innlend verðmætasköpun greinarinnar var 186 milljarðar króna á síðasta ári og starfandi í greininni voru 7% af heildarfjölda launþega í hagkerfinu eða um 14.000 manns. Þetta kemur fram í frétt Baldurs Arnarsonar, blaðamanns, í Morgunblaðsins í dag um framlag atvinnugreina til landsframleiðslu þar sem segir að Samtök iðnaðarins telji þessar tölur undirstrika mikilvægi hugverkagreinarinnar fyrir hagkerfið. Rætt er við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra hugverkasviðs SI, sem segir að vægi hugverkaiðnaðar í landsframleiðslu og verðmætasköpun komi ekki á óvart og vægið endurspegli þróun yfir langt tímabil. „Við erum að sjá afraksturinn núna. Hátækni- og hugvitsdrifin fyrirtæki skipa orðið stærri sess í landsframleiðslunni. Þeim hefur fjölgað og þau hafa stækkað.“ 

Hátækni- og hugverkadrifin fyrirtæki skipti meira máli í framtíðinni

Sigríður bendir á að hugvit og hátækni hafi áhrif á aðrar iðngreinar og atvinnulífið í heild. „Það má segja að þetta sé stoðiðnaður við aðrar atvinnugreinar en um leið er hugvits- og hátækniiðnaðurinn sem slíkur til staðar. Til dæmis skipta líf- og heilbrigðistæknigreinar sífellt meira máli. Ég held að sú þróun haldi áfram, að það verði jafnvel enn hraðari vöxtur, og að hátækni- og hugverkadrifin fyrirtæki skipti enn meira máli í framtíðinni.“ 

Áskoranir vegna gengis- og launaþróunar

Sigríður segir í fréttinni að hugverkaiðnaðurinn hafi haldið sjó á þessu ári en það séu ýmsar áskoranir sem takast þurfi á við. „Vissulega eru ákveðnir þættir í okkar hagkerfi og efnahagslífi sem leggjast þungt á allt atvinnulífið og iðnaðinn. Hugverkaiðnaður og hátækniiðnaður er þar ekki undanskilinn. Þarna á ég við gengis- og launaþróun, þætti sem skipta sköpum fyrir starfsumhverfi fyrirtækja á Íslandi almennt. Þetta er ekki sértækt fyrir hugverkaiðnaðinn.“ 

Örva þarf hvata til að stunda nýsköpun

Sigríður segir að ef við viljum að hátækni og hugvit haldi áfram að vaxa og dafna á Íslandi og að við séum meðal samkeppnishæfustu þjóða heims þurfi að ráðast í ýmsar aðgerðir. „Það þarf að örva hvata fyrir íslensk fyrirtæki, óháð stærð og gerð, til að stunda nýsköpun. Nýsköpun er leiðin að bættum lífskjörum í framtíðinni. Hún stuðlar einnig að auknum fjölbreytileika í útflutningi og tryggir vöxt gjaldeyrisstekna til framtíðar.“

Nýsköpunarstefna SI gefin út í haust

Sigríður segist fagna því að ríkisstjórnin hyggist setja nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. „Við ætlum að leggja okkar af mörkum með því að gefa út nýsköpunarstefnu Samtaka iðnaðarins núna í haust. Hún gildir í heild yfir það sem við viljum sjá í þessum málaflokki.“ 

Morgunblaðið / mbl.is, 5. september 2018.

Morgunbladid-05-09-2018