Fréttasafn



5. apr. 2018 Almennar fréttir Nýsköpun

Hugverkaráð SI fagnar afnámi þaks vegna rannsókna

Hugverkaráð Samtaka iðnaðarins fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að afnema þak á endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar fyrirtækja, en afnám þaksins hefur verið eitt af áherslumálum Hugverkaráðs SI.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var í gær, kemur fram að miðað sé við að hámarksstuðningur (þak) á endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar verði felldur á brott fyrir rekstrarárið 2019. Ríkisstjórnin fylgir með þessu í fótspor margra annarra ríkja, svo sem Bretlands og Kanada. Reynsla þeirra þjóða hefur sýnt að slík fjárfesting skilar sér í auknum tekjum ríkissjóðs til lengri tíma litið.

Ragnheiður H. Magnúsdóttir, formaður Hugverkaráðs SI, segir þetta vera mikla lyftistöng fyrir nýsköpun á Íslandi. „Íslensk fyrirtæki sem stunda nýsköpun hafa lengi beðið eftir þessu en þetta er mikilvægt skref í þá átt að byggja upp öflugan hugverkaiðnað á Íslandi, efla nýsköpun og stuðla að verðmætasköpun til framtíðar. Með afnámi þaksins er verið að styrkja samkeppnishæfni landsins.“ 

 

 

Hér er hægt að nálgast fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019-2023.