Fréttasafn4. des. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Hugverkaráð SI fagnar áherslum í nýjum stjórnarsáttmála

Hugverkaráð Samtaka iðnaðarins lýsir yfir mikilli ánægju með áform nýrrar ríkisstjórnar VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eins og þau birtast í nýjum stjórnarsáttmála.

Mörg þeirra málefna sem Hugverkaráð SI telur mikilvæg rötuðu í stjórnarsáttmálann. Með þeim málefnum sem þar eru sett á oddinn senda stjórnvöld skýr skilaboð til atvinnulífsins um að þeim sé alvara með að halda alþjóðlegum fyrirtækjum á Íslandi og að markmið þeirra sé að stuðla að uppbyggingu á hugverkadrifnu hagkerfi á Íslandi til langs tíma.

Hugverkaráð SI er framar öðru sammála eftirfarandi fullyrðingu sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum: „Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga.“

DSC_7481Ragnheiður H. Magnúsdóttir, formaður Hugverkaráðs SI, segir það ánægjulegt að í sáttmálanum komi fram að afnema eigi þak á endurgreiðslu rannsókna- og þróunarkostnaðar. „Við sjáum fram á að íslensk tækni- og hugverkafyrirtæki muni nýta þetta vel og við munum leggja okkar af mörkum að kynna úrræðið fyrir okkar aðildarfélögum. Þessi ákvörðun er mikið heillaskref fyrir íslenskt atvinnulíf þar sem forsendur fyrir uppbyggingu á spennandi þróunarverkefnum verða mun betri með þessari breytingu en áður. Þá þykir ráðinu virkilega jákvætt að sjá að áhersla á nýsköpun í menntamálum er ofarlega á blaði, enda menntakerfið einn mikilvægasti þátturinn í skapa samfélag á Íslandi sem við viljum búa í.“

Hlutverk Hugverkaráðs SI er að styrkja þau málefni sem eru sameiginleg fyrirtækjum sem starfa á alþjóðamörkuðum og byggja afurðir sínar og þjónustu á tækni og hugverki þar sem markmiðið er að efla samkeppnishæfni hugverka- og tæknifyrirtækja á Íslandi. Í ráðinu eiga mörg stærstu tækni- og hugverkafyrirtæki landsins fulltrúa, meðal þeirra eru CCP, Marel, Alvogen, Nox Medical og Advania.