Húsnæðismál til umræðu á fundi Þjóðhagsráðs
Fulltrúar SI, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, mættu á fund Þjóðhagsráðs sem haldinn var 7. nóvember sl. í Ráðherrabústaðnum þar sem húsnæðismál voru til umræðu. Á fundinum greindu þau frá því að skortur á íbúðum leiði til óstöðugleika á íbúðamarkaði og lausnin væri að byggja þyrfti meira. Í máli þeirra kom meðal annars fram að húsnæðiskostnaður vegi þungt fyrir heimili landsins og hafi á sama tíma mikið vægi í vísitölu neysluverðs. Mikil fjölgun landsmanna undanfarið hafi sett enn frekari þrýsting á þegar mikla uppsafnaða íbúða- og innviðaþörf. Of fáar íbúðir hafi verið byggðar og hver sem ástæðan sé fyrir því þá sé eina lausnin litið til framtíðar að byggja meira. Þau sögðu ríkisstjórnina hafa brugðist við með metnaðarfullum markmiðum um byggingu 35 þúsund nýrra íbúða á 10 árum en sveitarfélögin hins vegar væru að draga lappirnar þar sem einungis eitt sveitarfélag væri búið að gera samning við ríkið um uppbyggingu íbúða.
Að mati Samtaka iðnaðarins þá munu markmið um 35 þúsund íbúðir ekki nást þar sem of lítið hefur verið byggt og hratt dregið úr uppbyggingu þar sem skýr merki séu um samdrátt á fyrstu byggingarstigum. Flöskuhálsinn liggi hjá sveitarfélögunum þar sem skortir nægt magn tilbúinna lóða. Á fundinum kom fram að afstaða samtakanna væru skýr og kalli þau eftir fjölbreyttri uppbyggingu íbúða um land allt til að mæta ólíkum þörfum almennings og atvinnulífs. Leggja þurfi ríka áherslu á fjölbreytta uppbyggingu íbúða af ólíkum stærðum og gerðum, íbúða um land allt og íbúða fyrir ólíka tekjuhópa. Á sama tíma þurfi að forgangsraða uppbyggingu innviða í þágu nýrra hverfa og uppbyggingarsvæða.
Hærri fjármagnskostnaður og hertir skilmálar halda eftirspurn niðri
Þau sögðu að markmiðið væri að ná jafnvægi á íbúðamarkaði en til að svo megi verða þurfi að ráðast að rótum vandans. Það gerist ef byggingarmarkaðurinn sé í jafnvægi og framboð af lóðum sé nægt. En áskoranir sem byggingamarkaðurinn standi frammi fyrir um þessar mundir séu stórar. Hærri fjármagnskostnaður og hertir skilmálar greiðslumats haldi niðri eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði. Landsmönnum fjölgi hins vegar hratt og mikill skortur sé á íbúðum. Á sama tíma séu skýr merki um samdrátt í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Óvissa á íbúðamarkaði, hærri framleiðslukostnaður og lóðaskortur leiði til þess að fyrirtæki á byggingamarkaði sæki frekar í verkefni tengd opinberri uppbyggingu, innviðauppbyggingu eða uppbyggingu mannvirkja fyrir atvinnuvegina. Mikil eftirspurn sé eftir lóðum á sama tíma og íbúðamarkaður hafi kólnað og skýr merki séu um samdrátt.
Tekur tvö ár að hafa áhrif á framboð svo hefjast þarf handa strax
Þau sögðu að til að rjúfa kyrrstöðuna þurfi skýra sýn og samstillt átak ríkis, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og ekki síst byggingamarkaðarins. Þessir aðilar geti í sameiningu hafið kröftuga uppbyggingu með áherslu á nýjar lóðir og skipulag, hagkvæma húsnæðisuppbyggingu og uppbyggingu innviða. Saman geti þessir aðilar sameinast um uppbyggingu á einstökum uppbyggingarsvæðum og liðkað enn frekar fyrir fjölbreyttri uppbyggingu um land allt. Hefja þurfi skipulag og uppbyggingu á nýjum uppbyggingarsvæðum með áherslu á hagkvæma uppbyggingu og fjölbreytt búsetuform og kröftuga aðkomu og forgangsröðun ríkis í þágu innviða á þessum svæðum bæði hvað varðar samgönguinnviði en einnig aðra nauðsynlega innviði nýrra hverfa. Þá nefndu þau að áður hafi verið skipaðir fjölmargir átakshópar sem hafi rýnt regluverk og margt jákvætt áunnist. Nú þurfi hins vegar praktíska nálgun. Eftirspurnin sé til staðar á hverjum tíma en það taki tvö ár að hafa áhrif á framboð svo nú þurfi að hefjast handa strax svo jafnvægi megi ríkja a íbúðamarkaði.
Hér er hægt að nálgast kynninguna sem farið var yfir á fundinum.
Á vef Stjórnarráðsins er hægt að nálgast gögn um fund Þjóðhagsráðs 7. nóvember 2023.