Fréttasafn18. júl. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Húsnæðismálin munaðarlaus málaflokkur

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í viðtali á RÚV í dag að vegna þess hve dreifður málaflokkur húsnæðismálin séu finnist engum hann beinlínis bera ábyrgð á honum. Málaflokkurinn dreifist á félagsmála-, umhverfis- og sveitastjórnarráðuneyti. „Það hvarflar að manni að þessi mikilvægi málaflokkur sé munaðarlaus hjá ríkisstjórninni vegna þess að honum er skipt á milli þriggja ráðuneyta.“

Hann segir að Samtök iðnaðarins leggi til, að danskri fyrirmynd, að húsnæðismál verði færð úr félagsmálaráðuneytinu, byggingamál úr umhverfisráðuneytinu og allt verði þetta fært undir hatt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sem fengi þá heitið innviðaráðuneyti. „Með þessu móti væri komið skýrt forræði og ábyrgð á málaflokknum og skilvirkni ætti að aukast að sama skapi vegna þess að stjórnsýslan ætti að verða einfaldari.“ Húsnæðismálin séu jú grundvallarmál og lúti ekki síst að félagslegum stöðugleika. „Ólgan á vinnumarkaði snýst ekki síst að því hvernig staðan er á húsnæðismarkaði.“ 

Tillögur ráðherra dropi í hafið

Sigurður segir að tillögur félags- og jafnréttismálaráðherra, um að ríkið styrki sveitarfélög til að stuðla að frekari húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni, séu dropi í hafið en ráðherra kynnti fyrr í vikunni tillögur sínar um að styrkja húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni sem snýr að því að ríkið jafni mismun á fasteignaverði og byggingarkostnaði með beinu fjármagni þar sem fasteignaverð er lægra en byggingarkostnaður. Þá kom fram í fréttum RÚV í síðustu viku að rúmlega 50 fermetra íbúð með innbúi kostar 16 milljónir króna í nýreistu átta íbúða húsi á Bíldudal. Sigurður segir að þetta sýni glögglega muninn á borg og landsbyggð. „Það sem þetta kannski sýnir fyrst og fremst er sá munur sem er á milli sveitarfélaga. Ef framboð af lóðum er gott og ef gjöld sem sveitarfélagið tekur eru lág þá er auðvitað hægt að byggja á hagkvæman hátt og selja íbúðir á hagstæðu verði.“ Á höfuðborgarsvæðinu sé til að mynda of lítið framboð af lóðum, hvort sem er í nýjum hverfum eða innan byggðar og að afgreiðsla sveitarfélaganna sé líka tímafrek og kerfið gjarnan þunglamalegt sem auki að endingu kostnað kaupandans. „Þetta úrræði sem ríkisstjórnin kynnti er góðra gjalda vert og leysir ákveðin vandamál sem eru til staðar á svokölluðum köldum svæðum.“ 

Vantar 45 þúsund nýjar íbúðir fram til 2040

Í fréttinni segir Sigurður að staðreyndin sé sú að fram til ársins 2040 vanti 45.000 nýjar íbúðir á markaðinn. „Svoleiðis að nokkur hundruð íbúðir, sem þetta nýja úrræði kann að skapa, er auðvitað bara dropi í hafið.“ Þá segir hann að mest uppbygging þurfi að eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu. „Þar fjölgar fólki mest og þar þarf langmest uppbygging að eiga sér stað.“

Á vef RÚV er fréttin í heild sinni.