Fréttasafn



4. sep. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Húsnæðismarkaðurinn er lykill að samkeppnishæfni

Frá sjónarhóli Samtaka iðnaðarins er húsnæðismarkaðurinn ekki einangrað fyrirbæri. Hann er nátengdur samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og góðum lífskjörum almennings. Þetta segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í grein á Vísi undir yfirskriftinni Leysum heimatilbúinn vanda á húsnæðismarkaði. Hún segir að skortur á húsnæði á viðráðanlegu verði hamli fyrirtækjum að laða til sín hæft starfsfólk, bæði innlent og erlent og dragi úr lífsgæðum almennings auk þess sem skorturinn ýti undir launakröfur í kjarasamningum og dragi úr kaupmætti.

Jóhanna Klara segir að aðgerðir til úrbóta séu því ekki aðeins velferðarmál heldur brýnt hagsmunamál fyrir allt íslenskt samfélag. Lausnin að mati Samtaka iðnaðarins sé skýr: Að skapa skilyrði fyrir stöðugt og aukið framboð húsnæðis með samstilltu átaki stjórnvalda, sveitarfélaga og atvinnulífsins. „Þannig byggjum við grunn að heilbrigðum markaði og sterkari lífskjörum til framtíðar.“

Á vef Vísis er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísir, 4. september 2025.