Fréttasafn



15. des. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Húsnæðisskortur næstu árin ef ekkert verður að gert

„Við heyrum það frá okkar félagsmönnum að lóðamálin eru flöskuháls. Okkur hefur fundist sveitarfélögin ansi svifasein að bregðast við ábendingum okkar um það,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í Fréttablaðinu þar sem fjallað er um húsnæðisskort. Í fréttinni kemur fram að samkvæmt nýjustu íbúðatalningu SI, sem nær til yfir 90% landsins, sé gert ráð fyrir að 1.646 íbúðir fari á markað á næsta ári og 1.764 árið 2023. Þetta sé langt undir því sem þarf til þess að húsnæðismarkaðurinn sé í jafnvægi, um 3.500 íbúðir. „Ef ekkert verður að gert mun þetta ástand halda áfram næstu árin,“ segir Ingólfur í Fréttablaðinu. Einnig kemur fram að SI hafi byrjað að merkja samdrátt á fyrstu byggingarstigum í talningu sinni fyrir tveimur árum. Framboðið hafi ekki náð að halda í við eftirspurnina sem hafi aukist vegna lækkandi vaxta, aukins kaupmáttar og fólksfjölgunar, einkum á suðvesturhorninu.

Þétting tekur lengri tíma og er dýrari en ný hverfi

Þá segir í fréttinni að verkalýðshreyfingin hafi kallað eftir „nýju Breiðholti“, stóru hverfi með viðráðanlegu húsnæði en sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa hins vegar að miklu leyti litið til þéttingar núverandi hverfa. „Gallinn við þéttingu byggðar í núverandi ástandi er að hún tekur lengri tíma og er dýrari en að opna ný hverfi. Þegar markaðurinn er að kalla eftir byggingarreitum strax er ekki endilega heppilegt að fara í erfiða þéttingarreiti,“ segir Ingólfur. Þá séu sveitarfélögin of mörg og hafi litla heildarsýn í skipulagi. Það sé þó mjög til bóta að skipulagsmálin verði færð undir einn hatt í nýju innviðaráðuneyti.

Misgóð staða hjá sveitarfélögum til stækkunar

Jafnframt kemur fram í fréttinni að staðan sé misgóð hjá sveitarfélögum til stækkunar og Ingólfur segir sum misdugleg að sinna þessu. Á öllu Seltjarnarnesi sé aðeins ein íbúð í byggingu. Hafnarfjörður sé eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu þar sem íbúðum í byggingu sé að fjölga en fjöldi þeirra sé enn þá mjög lítill, aðeins 237 íbúðir, á meðan 490 eru í byggingu í Garðabæ, 646 í Kópavogi og 1.898 í Reykjavík.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 15. desember 2021.