Fréttasafn



27. sep. 2017 Almennar fréttir

Hvatningarverðlaun jafnréttismála til Vodafone

Vodafone hlaut Hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2017. Ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, afhenti forstjóra Vodafone, Stefáni Sigurðssyni, viðurkenninguna í Hátíðarsal HÍ í gærmorgun. 

Í áliti dómnefndar segir meðal annars: „Vodafone hefur unnið markvisst að því að jafna stöðu kynjanna í karllægum geira á öllum sviðum fyrirtækisins. Karlar séu markvisst ráðnir í deildir þar sem konur eru ráðandi og öfugt. Á þann hátt telur fyrirtækið að hægt sé að sporna við myndun svokallaðra karla- og kvennastarfa. Það sé skýr stefna fyrirtækisins að vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum og ber kynningarefni þess skýr merki um það að fyrirtækið hefur lagt sitt af mörkum til að uppræta staðalímyndir í þjóðfélaginu og markaðsefni sínu. Fyrirtækið hefur með fræðslu og samstarfi við góðgerðarsamtök haft áhrif á umræðu og vitundarvakningu í tengslum við kynbundið ofbeldi og hrelliklám. Sem stórt fyrirtæki á íslenskum tæknimarkaði er það til fyrirmyndar í jafnréttismálum.“