Fréttasafn



23. maí 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Hver borgarbúi situr fastur í umferð í 25 klukkustundir

Farartálmar og flöskuhálsar er yfirskrift leiðara Morgunblaðsins í dag. Þar er meðal annars vikið að umferðateppum á höfuðborgarsvæðinu og vitnað til greiningar Samtaka iðnaðarins á ástandinu þar sem áætlað er að dag hvern sé 15 þúsund klukkustundum eytt í umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu og að á ári sitji hver höfuðborgarbúi um 25 klukkustundir fastur í umferð. 

40% lengri ferðatími

Í leiðaranum segir að ástandið hafi versnað verulega á undanförnum árum og komi fram að höfuðborgarbúar hafi aldrei sólundað jafn miklum tíma í umferðartafir og í fyrra. Það met muni þó tæplega lifa árið. Til marks um versnandi ástand sé í greiningunni vitnað í skýrslu Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga þar sem fram kemur að þeir sem eigi leið úr Grafarvogi í vinnu miðsvæðis í Reykjavík verði nú að sætta sig við 40% lengri ferðatíma en árið 2012. 

Stórum samgöngumannvirkjum frestað

Þá segir að fyrir sex árum hafi Vegagerðin og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gert samkomulag um tíu ára tilraunaverkefni um að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu þar sem ætlunin hafi verið að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, lækka samgöngukostnað heimila og samfélagsins og stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Með þessu hafi meðal annars átt að skapa forsendur til að fresta stórum framkvæmdum í samgöngumannvirkjum. Leiðarahöfundur skrifar að nú sé samningstíminn rúmlega hálfnaður og að ekki sé nóg með að ekkert gangi að ná markmiðunum, heldur þegar horft er á heildarmyndina hafi ástandið versnað. Stórum samgöngumannvirkjum hafi vissulega verið frestað og megi þar nefna að mislæg gatnamót á mótum Reykjanesvegar og Bústaðavegar hafi verið tekin út af áætlun þótt komin væri fjárveiting til framkvæmdarinnar.  Þá segir að forsendurnar til að fresta þessum mannvirkjum hafi hins vegar aldrei myndast og þess vegna sitja borgarbúar fastir í umferðinni sem aldrei fyrr. 

Morgunblaðið, 23. maí 2018.