Fréttasafn31. okt. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Hvernig tekist er á við áskoranir hefur áhrif á framtíðina

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, tók þátt í umræðum á fundi Landsbankans í Hörpu í gær þar sem kynnt var ný hagspá undir yfirskriftinni Hagkerfið kemur inn til mjúkrar lendingar. Guðrún sagði meðal annars að spár sem þessar væru mikilvægur grundvöllur umræðu um efnahagsmál og notadrjúgt tæki til ákvarðanatöku, m.a. í hagstjórn og stjórn fyrirtækja. Hún sagði jafnframt að framtíðin sem væri verið að spá fyrir um markaðist af þeim ákvörðunum sem teknar væru í dag. Hvernig væri tekist á við áskoranir eða viðfangsefni á borð við umhverfismál, tæknibreytingar og öldrun þjóða muni hafa áhrif á það hvernig framtíð bíður okkar. Allt væru þetta ákvarðanir sem skeri úr um hvernig samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja þróast, hvort þau geti áfram skapað aukin verðmæti og störf til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.