Fréttasafn



22. jún. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Hvert orkan fer er umræða um atvinnustefnu

Rætt er við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í kvöldfréttum RÚV þar sem fjallað er um hvernig á að fara í full orkuskipti á næstu 18 árum líkt og markmið hafa verið sett um þar sem skipta þarf út orku í bílum, flugvélum og skipum. Sigríður segir að það sé ekki eingöngu verið að tala um stórar nýjar vatnsaflsvirkjanir. „Það er verið að tala um aflaukningu núverandi virkjana, jarðvarmann okkar sem er gríðarlega verðmætur og getur nýst okkur vel inn í framtíðina, ásamt til að mynda að skoða vindorkukosti og fleira. Þannig að þetta er vel raunhæft en það þarf að hefjast handa sem allra fyrst.“

Í frétt RÚV kemur fram að raforkuframleiðsla síðasta árs hafi verið 20TWh stundir og tvær sviðsmyndir sýndar. Annars vegar að auka þurfi orkuframleiðslu um 124% til að ná markmiðum um orkuskipti þannig að framleiðslan færi úr 20 TWh í 44TWh og hins vegar að framleiðslan færi í 36TWh á árinu 2040 sem jafngildi 5 eða rúmlega 3 Kárahnjúkavirkjunum. 

Sigríður segir í frétt RÚV að þegar rætt sé um hvert orkan eigi að fara sé það ekki umræða um orkumál. „Það er umræða um atvinnustefnu og við skulum hafa það í huga að stóriðjan hefur skilað okkur alveg gríðarlega miklum efnahagslegum lífsgæðum, í raun og veru velmegun á síðastliðinni hálfri öld. Ég mundi ekki vilja taka samtal um að draga hér úr hagvexti til langrar framtíðar og færa lífskjör aftur um nokkra áratugi aftur í tímann.“

RÚV, 21. júní 2022.